Handbolti

Tíu marka kvöld hjá Orra í Meistara­deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Freyr Þorkelsson var í mjög stóru hlutverki hjá Sporting Lissabon í kvöld.
Orri Freyr Þorkelsson var í mjög stóru hlutverki hjá Sporting Lissabon í kvöld. @SCPModalidades

Orri Freyr Þorkelsson átti sannkallaðan stórleik í kvöld í Meistaradeildinni í handbolta. Það voru fullt af íslenskum handboltamönnum í eldlínunni í Meistaradeildinni í kvöld.

Enginn þeirra lék þó betur en Hafnfirðingurinn Orri Freyr Þorkelsson sem skoraði tíu mörk í eins marks heimasigri Sporting á ungverska stórliðinu One Veszprém.

Orri Freyr og Francisco Mota Costa voru allt í öllu hjá Sporting en það var Mota Costa sem skoraði sigurmarkið á lokasekúndunum. Hann var þar að skora sitt tíunda mark.

Orri nýtti tíu af þrettán skotum sínum í leiknum en hann klúðraði einu af sjö vítaskotum sínum.

Bjarki Már Elísson skoraði þrjú mörk fyrir Veszprém í kvöld.

Sporting endaði þar með tveggja leikja taphrinu sína í Meistaradeildinni en bæði liðin eru jöfn með sex stig úr fimm leikjum.

Kolstad tapaði með ellefu mörkum á útivelli á móti þýska liðnu Füchse Berlin, 38-27. Refirnir voru komnir fimm mörkum yfir í hálfleik, 19-14.

Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði fimm mörk fyrir Kolstad og Sigvaldi Björn Guðjónsson var með þrjú mörk. Sigurjón Guðmundsson varði tvö skot í markinu. Arnór Snær Óskarsson komst ekki á blað.

Benedikt Gunnar gaf einnig tvær stoðsendingar en hann skoraði úr fjórum af fimm skotum sínum.

Norðmaðurinn Tobias Gröndahl skoraði níu mörk fyrir Füchse og Daninn Mathias Gidsel var með átta mörk.

Kolstad hefur tapað fjórum af fyrstu fimm leikjum sínum í Meistaradeildinni en Füchse Berlin er á toppnum með fimm sigra í fimm leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×