Handbolti

KA-menn fögnuðu fjórða sigrinum í röð og nú á móti Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KA-menn hafa haft næga ástæðu til að fagna sigrum að undanförnu.
KA-menn hafa haft næga ástæðu til að fagna sigrum að undanförnu. @ka_handbolti_

KA-menn héldu sigurgöngu sinni áfram í Olís-deild karla í handbolta í kvöld þegar þeir unnu Valsmenn í sjöundu umferðinni í kvöld.

KA vann fimm marka sigur á Val, 33-28, en þetta var fjórði deildarsigur KA-manna í röð. KA-menn unnu síðustu fjörutíu mínútur leiksins með átta mörkum, 24-16 og sýndu þá heldur betur styrk sinn.

KA komst fyrir vikið upp í tíu stig og við hlið Aftureldingar og Hauka í efstu sætunum. Valsmenn töpuðu aftur á móti öðru sinni í síðustu þremur leikjum og misstu KA-menn upp fyrir sig í töflunni.

Georgíumaðurinn Giorgi Dikhaminjia var frábær í liði KA en hann skoraði úr ellefu fyrstu skotunum sínum í leiknum og endaði með tólf mörk úr þrettán skotum.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson var einnig mjög öflugur með sjö mörk og sjö stoðsendingar. Logi Gautason skoraði fimm mörk.

Hinn ungi Gunnar Róbertsson skoraði átta mörk en aðeins tvö þeirra í seinni hálfleiknum. Andri Finnsson var með fjögur mörk.

Valsmenn komust í 3-1 og 6-4 í upphafi leiks og voru skrefinu á undan allan hálfleikinn. Mest náðu þeir þriggja marka forskoti, 12-9, þegar hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður.

Heimamenn í KA voru fljótir að jafna metin í 14-14 og staðan var 17-17 í hálfleik eftir að Valsmenn skoruðu síðasta mark hálfleiksins. Gunnar Róbertsson skoraði þá sitt sjötta mark í leiknum.

KA-menn enduðu fyrri hálfleik vel og byrjuðu seinni hálfleikinn mjög vel. Þeir náðu þriggja marka forskoti, 23-20. Eftir það voru þeir komnir með tökin og sigldu sigrinum í höfn í seinni hálfleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×