Fótbolti

Borgar­stjóri Boston svarar Trump

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michelle Wu var aðeins 36 ára þegar hún var kosin borgarstjóri Boston 2021.
Michelle Wu var aðeins 36 ára þegar hún var kosin borgarstjóri Boston 2021. epa/CJ GUNTHER

Michelle Wu, borgarstjóri Boston, hefur svarað Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna hótana hans um að færa leiki á HM í fótbolta næsta sumar úr borginni.

Boston er ein ellefu borga í Bandaríkjunum sem hýsa leiki á HM 2026. Áætlað er að sjö leikir á HM á næsta ári fari fram á Gillette-leikvanginum í Massachusetts, heimavelli New England Patriots í NFL-deildinni.

Trump hefur hótað að láta færa leiki á HM úr borgum þar sem Demókratar eru við völd. Boston er þar á meðal.

Wu, sem Trump lýsti sem róttækri vinstri manneskju, svaraði Bandaríkjaforseta í hlaðvarpinu Java with Jimmy.

„Mest af þessu er meitlað í stein með samningum svo enginn einn einstaklingur getur breytt því, jafnvel þótt hann búi í Hvíta húsinu,“ sagði Wu.

„Við lifum í heimi þar sem drama, stjórn og það að færa út mörk, áframhaldandi hótanir beinast gegn einstaklingum og samfélögum sem neita að gefa sig og beygja sig undir hatursfulla stefnu. Við höldum áfram að vera þau sem við erum og það þýðir, því miður, að við verðum í umræðunni sem beinist gegn gildum Boston.“

Trump og Gianni Infantino, forseta FIFA, er vel til vina og Bandaríkjaforseti segir að hann myndi færa leiki á HM ef hann myndi óska eftir því.

Heimsmeistaramótið 2026 fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. Það hefst 11. júní og lýkur með úrslitaleik á MetLife-leikvanginum í New Jersey 19. júlí.


Tengdar fréttir

FIFA: Donald Trump ræður engu um það

Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði því á dögunum að færa leiki á HM í fótbolta frá borgum sem hann á í deilum við en hann hefur í raun ekkert vald til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×