Erlent

Loka sendi­ráðinu ör­fáum dögum eftir veitingu Nóbels­verð­launa

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Sendiráð Venesúela í Ósló í Noregi.
Sendiráð Venesúela í Ósló í Noregi. epa

Yfirvöld í Venesúela hafa lokað sendiráði sínu í Ósló einungis nokkrum dögum eftir að stjórnarandstæðingurinn María Corina Machado hlaut friðarverðlaun Nóbels. Enginn rökstuðningur hefur verið veittur fyrir lokuninni.

„Við höfum fengið tilkynningu frá sendiráði Venesúela að þau ætla að loka og enginn rökstuðningur hefur verið veittur fyrir ákvörðuninni,“ segir Cecilie Roang, talsmaður utanríkisráðuneytis Noregs, fyrr í dag.

Sendiráðinu hafði verið lokað um morguninn og var starfsfólk hætt að svara símanum. Seinnipart mánudags var búið að aftengja símanúmerin.

Á föstudag fyrir helgi tilkynnti norska Nóbelsnefndin að Machado hlyti hin virtu friðarverðlaun Nóbels fyrir sleitulausa baráttu sína fyrir lýðræði í Venesúela og fyrir að tryggja friðasamleg umskipti til lýðræðis frá einræði í Venesúela. 

Hún var leiðtogi stjórnarandstöðunnar þegar umdeildar forsetakosningar fóru þar fram á síðasta ári og var henni meinað að bjóða sig fram til forseta. Opinber kjörstjórn lýsti síðan yfir sigri Nicolás Maduro sem stjórnarandstaðan mótmælti og töldu sig hafa sigrað kosningarnar.

Roang segir samkvæmt The Guardian að norskum yfirvöldum þyki það miður að sendiráðinu hafi verið lokað.

„Þrátt fyrir ágreining um ýmis mál vill Noregur halda viðræðum gangandi við Venesúela og mun halda áfram að vinna í þá átt,“ sagði hún.

Auk þess að loka sendiráðinu í Noregi hefur sendiráði Venesúela í Ástralíu einnig verið lokað. Í stað þess hyggjast þau opna ný sendiráð í Búrkína Fasó og Simbabve samkvæmt Reuters.

Maudor sagði í yfirlýsingu að um væri að ræða nýja stefnumótun og endurúthlutun auðlinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×