Erlent

Einn hinna látnu skotinn af lög­reglu og annar særður

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vettvangi árásarinnar í gær.
Frá vettvangi árásarinnar í gær. AP/Peter Byrne, PA

Annar þeirra sem létu lífið í hnífaárás við bænahús gyðinga í Manchester í gær var skotinn til bana og annar til viðbótar særður. Árásarmaðurinn var ekki með byssu og virðist sem fólkið hafi verið skotið af lögregluþjóni eða -þjónum.

Í tilkynningu frá lögreglunni á stór-Manchestersvæðinu (GMP) segir að annað fórnarlambið sem lést hafi verið með banvænt skotsár. Einn þeirra þriggja sem fluttir voru á sjúkrahús var einnig með skotsár.

Árásarmaðurinn, sem hét Jihad Al Shamie, var ekki vopnaður byssu og voru það eingöngu lögregluþjónar sem hleyptu af skotum á svæðinu.

Yfirmaður lögreglunnar segir að því sé útlit fyrir að viðkomandi fórnarlömb hafi orðið fyrir skotum lögregluþjóns eða þjóna, en það hefur ekki verið staðfest enn og munu krufningar og frekari rannsóknir fara fram í dag.

Bæði fórnarlömbin munu þó hafa staðið bak við dyr bænahússins, þar sem fólk reyndi að koma í veg fyrir að árásarmaðurinn kæmist inn í húsið.

Eins og áður segir, létu tveir lífið í árásinni. Adrian Daulby var 53 ára og Melvin Cravitz 66 ára. Hvor þeirra var skotinn til bana af lögreglu liggur ekki fyrir.

Litið er á árásina sem hryðjuverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×