Erlent

Hamas liðar vilja ekki afvopnast

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir bíða nú með eftirvæntingu eftir svörum frá Hamas. Gangi samtökin að áætlun Bandaríkjamanna mun það marka tímamót í sögu Gasa en segi þau nei, mun hernaður á svæðinu halda ótrauður áfram.
Margir bíða nú með eftirvæntingu eftir svörum frá Hamas. Gangi samtökin að áætlun Bandaríkjamanna mun það marka tímamót í sögu Gasa en segi þau nei, mun hernaður á svæðinu halda ótrauður áfram. Getty/Sean Gallup

Heimildarmaður sem þekkir til innan Hamas segir kröfur um að samtökin afvopnist eina af ástæðum þess að ekki hafi verið gengið til samninga um stöðvun átaka á Gasa.

Beðið er eftir formlegum svörum frá Hamas um friðaráætlun Bandaríkjamanna, sem kveður meðal annars á um að samtökin afsali sér völdum á svæðinu og leggi niður vopn. Hamas liðar eru sagðir óviljugir til að samþykkja þetta, sérstaklega á meðan ekkert er fast í hendi varðandi hina svokölluðu tveggja ríkja lausn.

Áætlun Bandaríkjamanna felur í sér að alþjóðleg nefnd taki tímabundið yfir stjórn á Gasa en að yfirráðum yfir svæðinu verði í fyllingu tímans komið í hendur heimastjórnar Palestínumanna, þegar gripið hefur verið til nauðsynlegra breytinga og gengið til kosninga.

Ekkert er minnst á sjálfstæða Palestínu í áætluninni.

Fyrr í þessari viku gaf Donald Trump Bandaríkjaforseti Hamas „þrjá til fjóra daga“ til að ganga að samkomulaginu, ella hefðu þeir verra af. Samtökin standa þannig frammi fyrir því að ef þau gangast ekki undir samkomulagið, haldi Ísraelsmenn ótrauðir áfram hernaðaraðgerðum sínum á Gasa. 

Hamas liðar eru einnig sagðir setja það fyrir sig að þrátt fyrir að kveðið sé á um að Ísrael innlimi ekki Gasa, sé óljóst hvenær Ísraelsher verður gert að draga sig frá svæðinu.

Guardian hefur eftir Michael Milshtein, sérfræðingini við Tel Aviv háskóla, að það muni verða sérstaklega erfitt fyrir samtökin að leggja niður vopn, þar sem vopnuð barátta sé stór partur af sjálfsmynd liðsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×