Erlent

Segir her­foringjum að búa sig undir á­tök gegn inn­lendum „ó­vinum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra, og Donald Trump, forseti.
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra, og Donald Trump, forseti. AP/Evan Vucci

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði bandarískum herforingjum og aðmírálum að búa sig undir að beita hernum innan Bandaríkjanna, gegn innlendum óvinum. Þetta sagði Trump í ræðu á fordæmalausum fundi með um átta hundruð af æðstu leiðtogum herafla Bandaríkjanna.

Trump fór um víðan völl í langri ræðu sinni. Hann stærði sig af ýmsum afrekum sínum og talaði um það hvernig hann hefði komið Bandaríkjunum til bjargar eftir hræðileg fjögur ár undir stjórn Joes Biden. Þá varði hann miklum tíma af ræðu sinni í að tala um innlenda óvini og það að beita hernum gegn þeim.

Áður hafði Pete Hegseth, varnarmálaráðherra, haldið langa ræðu fyrir herforingjana þar sem hann hét umfangsmiklum breytingum og lýsti yfir stríði gegn „vókisma“ og pólitískum rétttrúnaði.

Áhugasamir geta horft á báðar ræðurnar í heild sinni í spilaranum hér að neðan. Þar að neðan er farið yfir það helsta sem fram kom.

Óð úr einu í annað

Þegar Trump steig á svið byrjaði hann á því að nefna hvað allir væru alvarlegir í salnum og bað herforingjana um að slaka á. Forsetinn sagði að þeir mættu haga sér eins og þeim sýndist og jafnvel ganga úr salnum ef þeim líkaði ekki það sem hann myndi segja.

Trump sagði að það myndi þó kosta þá ferilinn og heyrðist þá hlátur í annars alvarlegum herforingjum.

Herforingjar í salnum.AP/Evan Vucci

Ræðan var að mörgu leyti ekki ósvipuð kosningaræðum Trumps, þar sem hann fór úr einu í annað og talaði hvað mest um meint afrek sín í starfi og hvað allt hefði verið hræðilegt áður en hann tók við völdum á nýjan leik.

Hann sló á svipaða strengi þegar hann hélt ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á dögunum.

Sjá einnig: Gagnrýndi allt og alla í langri og slitróttri ræðu

Trump virkaði einnig orkulítill í ræðu sinni og var hann nokkuð hás.

Óvinurinn úr okkar eigin röðum

Trump talaði mikið um að tryggja öryggi innan landamæra Bandaríkjanna og gaf til kynna að hann myndi beita hernum til þessa. Forsetinn nefndi sérstaklega þann eið sem hermenn sverja um að berjast gegn óvinum Bandaríkjanna, erlendum og innlendum, og sagði að Bandaríkin ættu marga innlenda óvini.

„Það er óvinurinn úr okkar eigin röðum og við þurfum að ná tökum á honum,“ sagði Trump. Þá kvartaði hann yfir mótmælendum og öfgamönnum sem væru fjármagnaðir af „fjar-vinstrinu“.

„Margir leiðtogar okkar hafa notað herinn til að halda friðinn.“

Trump sagði að Portland liti út eins og vígvöllur og „martröð“ og að nauðsynlegt væri að senda hermenn þangað til að ná tökum á borginni, eins og hann sagði um helgina, þó ráðamenn þar vilji ekkert með það hafa.

Sjá einnig: Trump-liðar heita hefndum

Í ræðunni sagðist Trump hafa lagt til að hermenn í þjálfun yrðu sendir til bandarískra borga, sem hann sagði hættulegar. Þær væri hægt að nota til að þjálfa hermenn.

Trump talaði einnig um Chicago og að herinn yrði sendur þangað, vegna þess að ríkisstjóri Michigan væri „heimskur“.

Um átta hundruð herforingjar og aðmírálar sátu undir ræðum Hegseths og Trumps.AP/Andrew Harnik

Trump varði líka hluta af ræðu sinn í það að tala um hvernig hann vandaði sig við að fara niður stiga. Hann vildi ekki detta í stiga. Trump sagðist ekki þurfa að setja nein hraðamet í stigum. Það væri mikilvægara að passa sig og fara hægt. Reyna að líta vel út, en fara hægt.

Þá nefndi hann Barack Obama, forvera sinn, í því samhengi. Trump sagðist ekki bera nokkra virðingu fyrir Obama sem forseta en sagði að hann hefði verið rosalega góður þegar kæmi að því að fara niður stiga.

Tvö bönnuð N-orð

Í ræðu sinni talaði Trump um kjarnorkuvopn og hve hættuleg þau væru. Hann nefndi ummæli frá Dmitrí Medvedv, fyrrverandi forseta og færsætisráðherra Rússlands sem er nú varaformaður öryggisráðs Rússlands, sem gaf til kynna að Rússar gætu beitt kjarnorkuvopnum gegn Bandaríkjunum.

Þá sagðist Trump hafa sent tvo kjarnorkukafbáta á „viðeigandi svæði“.

Trump sagði í ræðunni að aldrei mætti beita kjarnorkuvopnum en Rússar mættu ekki varpa fram hótunum um notkun þeirra.

„Það má ekki kasta þessu orði fram í hálfkæringi.

„Nuclear,“ sagði Trump á ensku. „Ég kalla það N-orðið. Þau eru tvö og það er bannað að nota þau.“

Hitt N-orðið er niðrandi orð yfir blökkumenn.

Stríð gegn „vók“

Áður en Trump tók til máls steig Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, á svið. Hann sagði nóg komið af pólitískum rétttrúnaði og „vók menningu“ í herafla Bandaríkjanna. Í ræðu sem hann hélt fyrir framan alla herforingja og aðmírála Bandaríkjanna boðaði Hegseth umfangsmiklar breytingar á heraflanum og sagði að herforingjar sem væru ósammála honum ættu að segja upp.

Löng ræða Hegseths snerist að miklu leyti menningarátök vestanhafs og það að „vók“ stefna hefði haldið aftur af hermönnum Bandaríkjanna um langt skeið. Hegseth var margrætt um kyn og kynþætti.

Hegseth sagði í ræðu sinni að allt of margir yfirmenn í hernum hefðu verið hækkaðir í tign vegna kyns þeirra eða litarháttar.

„Skeiði pólitísks rétttrúnaðar, viðkvæmni og ekki-særa-tilfinningar-neins stjórnun lýkur núna, á öllum stigum,“ sagði Hegseth meðal annars.

Leyfir liðþjálfum að leggja aftur hendur á nýliða

Hegseth boðaði alla herforingja og aðmírála Bandaríkjanna á fundinn í síðustu viku. Fundurinn þykir fordæmalaus en engum af þeim um átta hundruð herforingjum sem gert var að mæta á hann var sagt um hvað fundurinn snerist.

Sjá einnig: Ætlar að peppa herforingjana á fundinum fordæmalausa

Trump skrifaði í byrjun september undir forsetatilskipun um að nafni varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna yrði breytt aftur í stríðsmálaráðuneytið, en því var upprunalega breytt árið 1949. Sú breyting er þó enn sem komið er óformleg, þar sem þingið þarf að samþykkja frumvarp um breytinguna til að gera hana formlega.

Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.AP/Andrew Harnik

Í ræðunni sagðist Hegseth ætla að gera breytingar á innri endurskoðenda varnarmálaráðuneytisins, sem ráðherrann sagði að hefði verið vopnvæddur gegn hermönnum. Hann ætlar einnig að slaka á reglum hvað varðar slæma stjórnun til að leyfa leiðtogum að ná fram viðmiðum hersins án þess að þurfa að óttast hefndaraðgerðir.

Til marks um það sagði hann að liðþjálfum yrði aftur leyft að leggja hendur á nýliða í hernum, til að gera þá harðari af sér.

Einnig sagði Hegseth að gera ætti breytingar á reglum hvað varðar skrár hermanna, svo „heiðarleg mistök“ fylgdu þeim ekki eftir til langs tíma.

„Fólk gerir heiðarleg mistök og þau eiga ekki að hafa áhrif á allan feril þeirra,“ sagði Hegseth. „Annars leggjum við eingöngu áherslu á það að gera ekki mistök.“

Hegseth skaut einnig á herforingjana fyrir að vera ekki nægilega mikið í ræktinni eins og hann. Herða þyrfti viðmið í hernum sem varða hreysti hermanna og fjarlæga sérstök viðmið fyrir konur.

Hann hét því einnig að banna almennum hermönnum aftur að safna skeggi og sagði að þar yrðu viðmið einnig hert aftur.


Tengdar fréttir

Stefnir í fyrstu ríkisstöðvunina í sjö ár

Ekkert virðist geta komið í veg fyrir stöðvun reksturs alríkis Bandaríkjanna í nótt. Repúblikanar og Demókratar, sem deila um fjárútlát til heilbrigðismála, keppast við að kenna hvor öðrum um en þetta verður í fyrsta sinn í sjö ár sem deilur um fjárlög leiða til að stöðvunar.

Öruggur um að brátt ríki friður á Gasa

Forseti Bandaríkjanna og forsætisráðherra Ísraels sitja nú á fundi í Hvíta húsinu í Bandaríkjunum. Umræðuefnið er tillaga ríkisstjórnar forsetans að friði á Gasa.

Vill fá Trump til að gefa Taívan upp á bátinn

Xi Jinping, forseti Kína, er sagður reyna að nota ákafa Donalds Trump, kollega síns í Bandaríkjunum, til að gera viðskiptasamning ríkjanna á milli til að ná fram sínu helsta baráttumáli. Xi vonast til þess að fá Trump til að gefa Taívan upp á bátinn og standa gegn sjálfstæði eyríkisins.

Ráku starfsmenn FBI sem fóru á hnéð eftir morðið á Floyd

Yfirmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna hafa rekið um tuttugu starfsmenn sem voru á sínum tíma myndaðir við að fara niður á hné eftir að George Floyd var myrtur af lögregluþjónum árið 2020. Umfangsmikil mótmæli fóru fram víðsvegar um Bandaríkin í kjölfar morðsins og beindust þau gegn störfum lögreglunnar og mismunun í garð þeldökkra þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×