Erlent

Á­rásir stóðu yfir í rúma tólf tíma

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásir næturinn þykja mjög umfangsmiklar.
Árásir næturinn þykja mjög umfangsmiklar. Almannavarnir Úkraínu

Rússar gerðu í gærkvöldi og í nótt einhverjar umfangsmestu loftárásir á Úkraínu hingað til. Árásirnar stóðu yfir í rúma tólf tíma og notuðust Rússar við nærri því sex hundruð sjálfsprengidróna og tæplega fimmtíu eldflaugar af ýmsum gerðum, þar á meðal ofurhljóðfráar stýriflaugar.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir árásirnar hafa beinst gegn nokkrum borgum Úkraínu en þær hafi að mestu beinst að Kænugarði. Þar hafa að minnsta kosti fjórir látið lífið og tugir eru sagðir særðir.

Selenskí segir tólf ára stúlku hafa dáið og að börn séu einnig meðal þeirra sem særðust. Þá segir hann að árásirnar hafi að stórum hlut beinst að borgaralegum innviðum.

„Þessi viðurstyggilega árás var gerð nánast við lok allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og sýnir greinilega hvernig Rússar lýsa yfir afstöðu sinni. Moskva vill halda áfram að berjast og drepa,“ sagði Selenskí í færslu á samfélagsmiðlum og kallaði hann eftir auknum þrýstingi á yfirvöld í Rússlandi.

Hann sagði að koma þyrfti böndum á svokallaðan skuggaflota Rússlands, sem notaður er til að komast hjá refsiaðgerðum, og stöðva tekjustrauma Rússa sem þeir nota til að fjármagna stríðsreksturinn.

Flugher Úkraínu segir Rússa hafa notað 593 sjálfsprengidróna og tálbeitudróna til árásanna en að 566 þeirra hafi verið skotnir niður. Þá hafi Rússar notað nærri því fimmtíu stýriflaugar en að allar nema þrjár hafi verið skotnar niður.

AP fréttaveitan hefur eftir Vítalí Klitskó, borgarstjóra Kænugarðs, að margar sprengjur hafi lent á íbúðarhúsum, borgaralegum innviðum, heilsugæslustöð og leikskóla. Hann segir fregnir af skaða hafa borist frá að minnsta kosti tuttugu stöðum í borginni.


Tengdar fréttir

Segir NATO og ESB hafa lýst yfir stríði við Rússland

Utanríkisráðherra Rússlands segir að Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið hafi lýst yfir raunverulegu stríði við Rússland, í gegnum Úkraínu. Á fundi utanríkisráðherra G20 ríkjanna svokölluðu sagði Sergei Lavrov einnig að Vesturlönd bæru ábyrgð á innrás Rússa í Úkraínu.

Pútín auki einfaldlega stríðsreksturinn verði hann ekki stöðvaður

Volodymyr Selenskí, forseti Úkraínu, segir að Rússlandsforseti muni auka og breiða út stríðsresktur sinn verði hann ekki stöðvaður. Stríðið væri knúið áfram af nýrri vopnatækni og gervigreind. Alþjóðalög hefðu ekkert gildi án valdamikilla vina og vopna. Þetta kom fram í ávarpi hans á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×