Skoðun

NATO riðar til falls en hvað þýðir það fyrir skilnaðar­barnið Ís­land?

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skrifar

Í 75 ár hefur NATO verið skjöldur Evrópu. Ísland, herlaust land, hefur hingað til treyst á þennan skjöld í barnslegri blindni. Nú er skjöldurinn kolryðgaður. Donald Trump hótar að yfirgefa bandalagið og málflutningur hans ýtir undir klofninginn sem virðist óumflýjanlegur.

Austur-Evrópa heldur fast í NATO. Vestur-Evrópa undirbýr að taka stjórnina. Ísland stendur á erfiðum tímamótum.

Austrið treystir á NATO

Pólland, Eistland, Lettland og Litháen líta á NATO og sérstaklega Bandaríkin sem einu raunverulegu vörnina gegn Rússum. Þau kaupa bandarísk vopn, hýsa hermenn og halda fast í bandalagið. Fyrir þessi ríki er NATO spurning um líf og dauða.

Vestrið undirbýr eigin varnir

Frakkland, Þýskaland, Spánn og Ítalía vita að stuðningur Bandaríkjanna er ekki lengur sjálfgefinn. Þau undirbúa því evrópskt varnarkerfi með sameiginlegri herstjórn, hraðvirku viðbragðskerfi og samræmdum útgjöldum. Þetta er í reynd evrópskur her í fæðingu – þó hann sé ekki kallaður því nafni. Vestur-Evrópa predikar eins og prestur um lýðræði, en safnar vopnum. Þetta tvennt fer óneitanlega illa saman.

Skilnaðarbarnið Ísland

Ísland hefur ekki eigin her en er landfræðilega í lykilstöðu. Keflavík og Norður-Atlantshafið skipta sköpum í vestrænum vörnum. Ef NATO veikist enn frekar þarf Ísland að velja hvort það treystir enn frekar á tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin eða tengjast evrópsku varnarkerfi. Þetta verður vitaskuld fókus íslenskra stjórnmálamanna og almenningur á Íslandi má því búast við litlum og hægfara úrbótum í innanlandsmálum í þessari heimsstöðu.

Hverjum klukkan glymur

Hverjir munu verja lofthelgina og hafsvæðið okkar ef NATO klofnar í sundur? Skilnaðir eru erfiðir en oft óumflýjanlegir. Ísland þarf fyrr en síðar að ákveða hvoru foreldrinu það fylgir – Washington eða Brussel.

Höfundur er leikkona. 




Skoðun

Skoðun

Þúsundir kusu Sönnu

Anna Bentína Hermansen Einarsdóttir,Ármann Hákon Gunnarsson,Baldvin Björgvinsson,Brynja Guðnadóttir,Haraldur Ingi Haraldsson,Jón Hallur Haraldsson,Kolbrún Erna Pétursdóttir,Ólafur H. Ólafsson,Rakel Hildardóttir,Sigrún Jónsdóttir skrifar

Sjá meira


×