Erlent

Hefðu getað sett símkerfi New York á hliðina

Samúel Karl Ólason skrifar
Umræddur búnaður, um þrjú hundruð vefþjónar og um hundrað þúsund SIM-kort fundust á nokkrum stöðum í grennd við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna.
Umræddur búnaður, um þrjú hundruð vefþjónar og um hundrað þúsund SIM-kort fundust á nokkrum stöðum í grennd við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna. Secret Service

Lífvarðarsveit forseta Bandaríkjanna (Secret Service) hefur lagt hald á búnað sem gæti hafa verið notaður til að setja símkerfið í New York, þar sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fer fram, á hliðina. Hald var lagt á rúmlega hundrað þúsund SIM-kort og um þrjú hundruð vefþjóna, sem gætu hafa verið notaðir til að senda þrjátíu milljón smáskilaboð á mínútu.

Í frétt New York Times segir að mögulega hefði verið hægt að nota búnaðinn til að trufla störf viðbragðsaðila og að senda dulkóðuð skilaboð. Hann hefði einnig verið hægt að nota til tölvuárása en heimildarmaður NYT segist aldrei hafa séð annað eins.

Engar upplýsingar liggja þó fyrir um notkun búnaðarins eða á hverra vegum hann er eða hvort hann hafi með nokkrum hætti ógnað allsherjarþinginu.

Þangað munu mæta rúmlega hundrað þjóðarleiðtogar heimsins og eins og NYT segir hefur samkomunni verið lýst sem einskonar heimsmeistaramóti í njósnastarfsemi. Sérfræðingar segja í samtali við miðillinn að umfangið bendi til þess að búnaðurinn sé á vegum einhvers ríkis.

Heimildarmenn NYT segja að greining á SIM-kortunum hafi opinberað tengsl við að minnst eitt ríki og við skipulagða glæpastarfsemi.

Yfirmaður lífvarðarsveitarinnar í New York sagði í yfirlýsingu sem birt var í morgun að málið yrði rannsakað í þaula og reynt verði að varpa ljósi á það hvað þeim sem áttu búnaðinn stóð til.

Allur búnaðurinn mun hafa fundist á mismunandi stöðum í grennd við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna en hann fannst eftir um það bil mánaðarlanga rannsókn yfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×