Tíska og hönnun

Ís­lenski hönnuðurinn sem Dorrit dýrkar

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Sól Hansdóttir og Dorrit Moussaieff glæsilegar í hönnun Sólar á tískuviku í London.
Sól Hansdóttir og Dorrit Moussaieff glæsilegar í hönnun Sólar á tískuviku í London. Instagram

Fatahönnuðurinn og listakonan Sól Hansdóttir er stödd á tískuviku í London þar sem hún sýndi nýjustu línuna sína við góðar viðtökur. Vogue blaðakonan Mosha Lundström Halbert lét sig ekki vanta og dró fyrrum forsetafrúnna og tískudrottninguna Dorrit Moussaieff með sér á sýninguna.

Umtalað útgáfuhóf

Dorrit var heldur betur hrifin af hönnun Sólar og var ekki lengi að skella sér í kjól frá Sól og birta myndir af því á Instagram. Blaðamaður tók púlsinn á Sól og fékk að heyra nánar frá. 

„Við vorum sumsé að halda útgáfuhóf fyrir nýjustu línuna okkar sem er vorlínan 2026. Stemningin var alveg frábær, við vorum með ótrúlega flotta uppsetningu á „lookbook“ myndum sem við höfðum prentað út á um 150 A4 blöð. 

Fyrirsæturnar voru eins og eins konar kvenskörungar sem tóku yfir rýmið. Svo var nóg af víni, vinum og súkkulaðinu Ferraro Rocher, sem verður alltaf að vera,“ segir Sól kímin og bætir við að viðbrögðin hafi verið gríðarlega góð.

Dorrit sýndi fötunum strax áhuga.

„Hún keypti ekki kjólinn sem hún mátaði því það var ekki hægt að kaupa það, þar sem um var að ræða sýnieintak. En það er kannski líka bara passlegt fyrir fyrrverandi forsetafrú að láta sérsauma á sig,“ segir Sól brosandi.

Brunaði beint af flugvellinum á sýninguna

Stöllurnar voru að hittast í fyrsta sinn þarna.

„En við alveg smullum saman og mig hafði lengi langað að hitta hana og klæða hana. Hún er með svo æðislega orku sem ég met mikils og svo er hún glæsileg. Hún alveg smell passaði til dæmis í fötin beint af tískupallinum.“

Sól og Dorrit glæsilegar í Sól Hansdóttir design.Instagram

Mosha er vinkona Sólar og hefur löngum sýnt sköpun hennar mikinn áhuga.

„Hún skrifar fyrir Vogue og fleiri flott tímarit og þekkir Dorrit. Hún ákvað að bjóða henni með, Dorrit var akkúrat nýlent í London og kom beint af flugvellinum á sýninguna.“

Það er svo ótal margt spennandi á döfinni hjá Sól.

„Við erum að byrja sölu á haustlínunni okkar 2025, svo erum við með pop up í Berlín eftir þrjár vikur til að fagna samstarfi Sól Hansdóttur við þýska skófyrirtækið Trippen en við hönnuðum saman skópar fyrir haustlínuna okkar. Svo eru nokkur önnur spennandi verkefni sem ég get ekki sagt frá núna,“ segir Sól glöð í bragði að lokum.

Sól Hansdóttir var viðmælandi í menningarþáttunum Kúnst haustið 2023. Viðtalið má sjá hér: 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.