Lífið

Hljóp undir fölsku nafni

Atli Ísleifsson skrifar
Harry Styles er greinilega margt til lista lagt!
Harry Styles er greinilega margt til lista lagt! AP

Enski söngvarinn og lagasmiðurinn Harry Styles hljóp Berlínarmaraþonið sem fram fór á sunnudag á undir þremur klukkustundum.

AP segir að forsvarsmenn keppninnar hafi staðfest að Styles hafi sannarlega tekið þátt, en þýska blaðið Der Tagesspiegel greindi fyrst frá þátttöku Styles.

Hinn 31 árs gamli Styles, sem var á árum áður í hópi liðsmanna strákasveitarinnar One Direction, var í hópi þeirra 55 þúsund hlaupara sem tóku þátt í Berlínarmaraþoninu á sunnudag. Berlínarmaraþonið er almennt talið vera eitt hraðasta maraþon heims, það er brautin þykir henta vel til þess að ná hröðum tíma.

Styles notaðist við gervinafnið Sted Sarandos og klæddist ennisbandi og sólgleraugu í hlaupinu. Hann hljóp brautina á tveimur klukkustundum, 59 mínútum og þrettán sekúndum. Að hlaupa maraþon á undir þremur tímum er eitt æðsta takmarkið meðal fjölda hlaupara.

Der Tagesspiegel greinir frá því að sést hafi til Styles í Berlín dagana fyrir hlaupið við æfingar.

Athygli vakti að Styles kom í mark á svipuðum tíma og hlauparinn Richard Whitehead, sem hefur tvívegis unnið til gullverðlauna á Ólympíumóti fatlaðra. Whitehead hefur það að markmiði að hlaupa tuttugu maraþon á árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.