Innlent

Ís­lendingar í flug­um­ferðar­stjórn á stærsta flug­velli Græn­lands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þórður Eggert Viðarsson, flugumferðarstjóri Isavia á Grænlandi.
Þórður Eggert Viðarsson, flugumferðarstjóri Isavia á Grænlandi. Egill Aðalsteinsson.

Íslenskir flugumferðarstjórar á vegum Isavia hafa undanfarinn áratug annast flugumferðarþjónustu fyrir Grænlendinga. Með breytingum á flugvallakerfi landsins eru horfur á að ekki verði lengur þörf fyrir Íslendingana.

Í fréttum Sýnar var Kangerlussuaq-flugvöllur á Grænlandi heimsóttur. Bandaríkjaher byggði völlinn í síðari heimsstyrjöld en hann hét áður Syðri-Straumfjörður. Þar til í fyrra var hann eini flugvöllur Grænlands sem tók við stórum áætlunarþotum og jafnframt sá eini með umferðarstjórn úr turni.

Frá Kangerlussuaq-flugvelli.Egill Aðalsteinsson

Svo vildi til að á meðan við stöldruðum við á flugvellinum var íslenskur flugumferðarstjóri að störfum í flugturninum. Hann heitir Þórður Eggert Viðarsson og var í fyrsta hópnum sem svaraði kallinu þegar óskað var aðstoðar Isavia við að manna turninn fyrir rétt rúmum áratug.

Þórður rifjar upp að það hafi verið þann 18. maí árið 2015 sem fjórir íslenskir flugumferðarstjórar mættu ásamt yfirmanni til starfa í Kangerlussuaq. Síðan hafi Íslendingar nánast óslitið sinnt þar flugumferðarstjórn en úthaldið hefur yfirleitt verið tíu til fjórtán dagar.

Aðflug að Kangerlussuaq-flugvelli.Egill Að'alsteinsson

Með opnun nýrrar flugbrautar í Nuuk undir lok síðasta árs missti Kangerlussuaq hlutverk sitt sem aðalflugvöllur Grænlands. Hann telst engu að síður besti flugvöllur landsins með 2.800 metra langri braut. Ástæðan er ekki síst einstakt veðurfar í botni þessa 160 kílómetra langa fjarðar.

Nánar má fræðast um störf íslensku flugumferðarstjóranna á Grænlandi í frétt Sýnar:


Tengdar fréttir

Sláandi tölur um aflýst flug til Nuuk-flugvallar

Hinn nýi alþjóðaflugvöllur Grænlendinga í Nuuk hefur lokast mun oftar vegna óveðurs en búist var við. Sláandi tölur hafa verið birtar um fjölda aflýstra flugferða frá áramótum.

Grænlendingar fagna nýjum alþjóðaflugvelli

Grænlendingar fagna í dag nýjum alþjóðflugvelli í Nuuk. Opnun vallarins er sögð marka þáttaskil í samgöngum Grænlands við umheiminn og var almenningi boðið til hátíðar með tónleikum og veisluhöldum í dag og flugeldasýningu í kvöld.

Danskar herþotur verða staðsettar á Grænlandi

Grænlenska landsstjórnin og danska ríkisstjórnin hafa kynnt ákvörðun um að viðvera danska hersins á Grænlandi verði efld á næstu mánuðum. Tilgangurinn er bæði að styrkja varnarmátt danska hersins á norðurslóðum og að treysta öryggis- og björgunarviðbúnað gagnvart íbúum Grænlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×