Enski boltinn

Göfug­lyndur Guar­diola: „Heilt yfir var Arsenal betri aðilinn“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lærisveinar Guardiola voru þreyttir eftir erfiða leiki undanfarið.
Lærisveinar Guardiola voru þreyttir eftir erfiða leiki undanfarið. EPA/VINCE MIGNOTT

Pep Guardiola, þjálfari Manchester City, sagði 1-1 jafntefli sinna manna gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni sanngjarnt. Skytturnar voru að hans mati betri aðilinn í leik þar sem hans menn voru þreyttir eftir erfiða viku.

„Við spiluðum erfiða leiki í vikunni, Manchester United og svo í Meistaradeild Evrópu. Í dag spiluðum við gegn kraftmiklu liði,“ sagði Pep. Það útskýrir kannski af hverju Man City ákvað að leggjast til baka eftir að komast yfir snemma leiks.

„Hrós á liðið okkar fyrir seigluna. Það er erfitt þegar þú ert ekki skilvirkur í hápressunni, það er alltaf erfitt í uppspilinu,“ sagði Pep á sinn einstaka hátt.

„Við áttum nokkrar skyndisóknir. Ég tel úrslitin sanngjörn. Heilt yfir var Arsenal betri aðilinn.“

Spánverjinn var spurður nánar út í samheldni sinna manna.

„Síðan félagaskiptaglugginn lokaði hefur samheldnin verið frábær. Þetta var krefjandi í dag og Arsenal hefur allt, við vörðumst hornspyrnum þeirra virkilega vel. Við tökum stigið, við þurfum að bæta okkur en það er eins og það er.“

„Við vorum virkilega þreyttir. Leikurinn gegn Napoli var tilfinningaþrunginn og eftir endurheimt höfðum við fjögurra til fimm tíma ferðalag til Lundúna. Það var mikið um þreytta fætur. Við erum líka með fjölda leikmanna á meiðslalistanum.“

Meiðslalisti Man City inniheldur: Rayan Aït-Nouri, Rayan Cherki, Mateo Kovačić, Omar Marmoush og Kalvin Phillips.

Að endingu var Guardiola spurður út í fimm manna varnarlínu sína.

„Við viljum helst ekki spila þannig en þegar andstæðingurinn er betri þá þurfum við að verjast aftarlega og beita skyndisóknum. Það er þó aldrei ætlunin. Ég myndi helst vilja sleppa því en þú verður að gera það á þessu getustigi. Í sumum leikjum þarf maður að aðlaga sig að mótherjanum.“

Man City er í 9. sæti með sjö stig að loknum fimm umferðum, átta stigum minna en topplið Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×