Skoðun

30 by 30 - Gefum lífi á jörð smá séns

Rósa Líf Darradóttir skrifar

Við stöndum á tímamótum í samskiptum okkar við náttúruna. Alþjóðlega markmiðið „30 by 30“ snýst um að vernda 30% af landi og hafi jarðarinnar fyrir árið 2030. Þetta er nauðsynleg viðbragðsaðgerð til að stemma stigu við hnignun fjölbreytileika lífríkisins.

Aðeins 4% eftir af villtum spendýrum

Villt spendýr er aðeins um 4% af öllum spendýrum heimsins, á meðan er búfé 62% og við mannfólkið um 34%. Þessi hlutföll segja sögu: jarðarbúar hafa umturnað vistkerfum rækilega og dýrategundir hverfa óhugnanlega hratt.

Heildar lífmassi villtra landspendýra hefur minnkað um meira en 80% frá því að mannkynið hóf landbúnað fyrir um 10.000 árum.

Íslenskt dýralíf

Þegar aðeins 4% af villtum spendýrum jarðar eru eftir blasir við sérstök mótsögn hér á Íslandi: við erum enn að drepa þau dýr sem tilheyra þessum litla og dýrmæta hóp.

  • Refir eru veiddir ár hvert í þúsundatali með fjárstuðningi ríkisins, eins og um skaðvalda sé að ræða þegar þeir eru hluti af því dýrmæta broti af villtu spendýralífi sem jörðin á eftir. Við ættum að læra af mistökum nágranna okkar í Svíðþjóð, Noregi og Finnlandi en þar var heimskautarefnum nánast útrýmt vegna veiða.
  • Hvalir, þessa ljúfu risa hafsins sem gegna lykilhlutverki í vistkerfum sjávar og binda mikið magn kolefnis, má enn veiða þá hér á landi þrátt fyrir að meirihluti heimsbyggðarinnar hafi snúið baki við þeirri ömurlegu iðju. Við verðum að binda enda á þessar veiðar sem standast ekki lög um velferð dýra og grafa undan vistkerfi sjávar.
  • Selir voru veiddir af hörku eftir að hringormanefndin var sett á laggirnar á níunda áratugnum. Veitt voru verðlaun fyrir dráp á landsel í þeirri von um að draga úr tíðni hringormasýkinga í fiskistofnum við landið. Þessi aðgerð skilaði engum mælanlegum árangri en leiddi til hruns í stofni landsela sem nú er á válista. Í dag eru selveiðar formlega bannaðar en samt er heimilt að veiða þá til eigin nytja með leyfi frá Fiskistofu. Þannig virðast viðhorf íslenskrar stjórnsýslu til dýraverndar vera: veiðar eru bannaðar nema þegar þær eru leyfðar.
  • Lundar eru í vanda. Lundastofninn hefur hnignað um rúmlega 70% á síðustu áratugum. Þrátt fyrir það er hann enn veiddur og markaðsettur sem „spennandi íslenskur rétt“ fyrir ferðamenn á veitingahúsum Reykjavíkur.

Það liggur beinast við að við Íslendingar gerum hvað við getum til að tryggja þessum merkilegu dýrum örugga framtíð. Við verðum að taka þau með í reikninginn þegar við útfærum okkar eigin 30 by 30. Við megum ekki láta 30 by 30 verða að tölum á blaði eða hlutföll á pappír þar sem svæði eru valin eftir hentugleika hagsmunaaðila. Tilgangur samkomulagsins verður að vera áþreifanlegur og má ekki gleymast:

Að gefa jörðinni og öllu hennar dýrmæta fjölbreytta lífi örlítið tækifæri til að standa af sér ágang mannkyns.

Höfundur er læknir, formaður Samtaka um dýravelferð og situr í stjórn Hvalavina.




Skoðun

Sjá meira


×