Fótbolti

Dilja Ýr lagði Man United og Sæ­dís Rún lagði upp

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það gekk lítið upp hjá Man Utd í kvöld.
Það gekk lítið upp hjá Man Utd í kvöld. EPA/PAUL S. AMUNDSEN

Diljá Ýr Zomers og stöllur hennar í Brann gerðu sér lítið fyrir og lögðu Manchester United í undankeppni Meistaradeildar Evrópu kvenna í fótbolta. Áhorfendamet var sett á leiknum.

Diljá Ýr var í byrjunarliði Brann í kvöld en var tekin af velli í upphafi síðari hálfleiks. Það sem reyndist sigurmarkið kom á 77. mínútu. Ingrid Stenevik skilaði knettinum þá í netið eftir sendingu Signe Gaupset.

Þrátt fyrir Man United hafi reynt hvað það gat tókst Ellu Toone og stöllum ekki að jafna metin, lokatölur 1-0 Brann í vil. Um er að ræða leik í 3. umferð undankeppninnar, það lið sem sigrar einvígið fer í Meistaradeildina.

Hátt í sextán þúsund manns mættu á leikinn sem gerði hann að aðsóknarmesta kvennaleik í sögu Noregs.

Sædís Rún Heiðarsdóttir kom inn af bekknum í síðari hálfleik þegar Vålerenga lagði Ferencváros að velli, lokatölur 3-0. Gerði íslenska landsliðskonan sér lítið fyrir og lagði upp síðasta mark leiksins. Arna Eiríksdóttir sat allan tímann á varamannabekk norska liðsins.

Sömu sögu var að segja af Amöndu Andradóttir, leikmanni Twente, og markverðinum Fanneyju Ingu Birkisdóttir, leikmanni BK Häcken.

Twente vann 4-0 útisigur á Katowice á meðan BK Häcken gerði 1-1 jafntefli við Atlético Madríd á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×