Innlent

Ekki ráðist í bólusetningarátak gegn Covid-19

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Listi yfir áhættuhópa hefur verið uppfærður en hann má finna á vef landlæknisembættisins.
Listi yfir áhættuhópa hefur verið uppfærður en hann má finna á vef landlæknisembættisins. Vísir/Vilhelm

Ekki verður ráðist í átak í bólusetningum gegn Covid-19 samhliða inflúensubólusetningum haustsins, heldur verður fylgst náið með veikindum á sjúkrastofnunum og hvatt til bólusetninga ef tilefni reynist til.

Frá þessu er greint á vef landlæknisembættisins og meðal annars vísað til þess að veikindi vegna Covid-19 hafi verið meira áberandi yfir sumartímann en yfir háveturinn.

„Jafnframt hefur mun minna borið á alvarlegum veikindum vegna COVID-19 undanfarna mánuði en fyrri ár þrátt fyrir minnkandi þátttöku í bólusetningum meðal áhættuhópa og hefur því aldursviðmið sem mælt er með bólusetningu óháð öðrum áhættuþáttum verið hækkað í 75 ár,“ segir einnig.

Embættið segir ekki útilokað að bólusetningarátök undanfarinna tveggja ára hafi átt þátt í því að ekki bar eins mikið á Covid-19 veikindum yfir vetrartímann. Því verði fylgst náið með því hvort fyrra mynstur helst og ekki settar hömlur á dreifingu bóluefnis þótt stórt átak sé ekki fyrirhugað að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×