Menning

Gamla TR-húsinu um­breytt í Hlemm.haus: „Augljóst að þörfin var gríðar­leg“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hlemm.haus er í gamla húsnæði Tryggingastofnunar við Hlemm.
Hlemm.haus er í gamla húsnæði Tryggingastofnunar við Hlemm.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir að nýju 2500 fermetra húsnæði við Hlemm þar sem skapandi fólk býðst leiga á ódýrri aðstöðu. Óhagnaðardrifna sjálfseignarstofnunin Haus sér um rekstur rýmisins en Haraldur Þorleifsson er einn forsvarsmanna þess.

„Þegar við opnuðum Hafnar.haus fyrir þremur árum þá fylltist húsið mjög hratt,“ segir Haraldur en Hafnar.haus er sams konar samfélag staðsett í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu.

Um sjötíu stúdíó eru í húsnæðinu.

„Eftir nokkrar vikur voru komin 500 manns á biðlista þannig að það var augljóst að þörfin var gríðarleg. Við höfum þessvegna haft augun opin fyrir góðum stað til að fjölga möguleikum til að búa til skapandi fólk sem er oft í vandræðum með að finna sér samastað,“ segir Haraldur.

Haus er óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun og getur því boðið aðstöðu á lægri verðum en fást á einkamarkaði. Stúdíóin eru mismunandi að stærð, minnstu plássin kosta um 30 þúsund krónur, en einnig er hægt að fá aðgengi að skrifborðum á enn lægri verðum.

„Verðið er að sjálfsögðu stórt atriði, skapandi fólk hefur oft ekki mikið milli handanna, en það er ekki síður samfélagið sem skiptir sköpum. Það eru um 300 manns sem vinna í Hafnar.haus og við búumst við að rúmlega 200 manns geti unnið í Hlemmur.haus,“ segir Maddý Hauth sem mun halda utan um samfélagið á Hlemmi.

Útisvæði við Hlemm.haus.

Markmiðið sé að búa til sambærilega aðstöðu og varð til í Hafnar.hausi þar sem boðið er upp á hádegismat á hverjum degi og fjölda viðburða í mánuði þar sem meðlimir hittast. 

Nú þegar hafa um 150 manns sótt um að komast inn á Hlemmi en umsóknarfrestur rennur út eftir um tvær vikur. Áhugasamir eru hvattir til að sækja um á vefsíðu Hlemmur.haus.

Sextíu þúsund fermetrar auðir

Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarstjóri, vakti athygli á því í skoðanagrein á Vísi í morgun að 60 þúsund fermetrar af húsnæði í eigu ríkisins standi tómir. Húsnæðið væri um land allt, tilheyrði fjölbreyttum málaflokkum og bendi margt til að virði eignanna sé vanmetið.

Ekki hefði verið gerð heildstæð úttekt á húsnæði ríkisins varðandi raka og myglu en í um fjórðungi húsnæðisins hefði fundist raki eða mygla.

Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar, er með ýmsar pælingar.Vísir/Anton Brink

„Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvernig rétt er að vinna með húsnæði sem stendur tómt. Í mörgum tilvikum getur verið skynsamleg niðurstaða að ríkið selji eignir frá sér. Líklega er þó skynsamlegt að huga að þróun þeirra eigna, t.d. með breyttu skipulagi þar sem kannað yrði með viðkomandi sveitarfélagi hvar mætti byggja meira samhliða endurbótum. Jafnvel má innrétta íbúðir í stað atvinnuhúsnæðis einsog mörg góð dæmi eru um og einkaaðilar stefna á í vaxandi mæli,“ skrifar Dagur.

Reykjavíkurborg hefði haft þá stefnu að láta húsnæði helst aldrei standa autt, því autt húsnæði skemmist oft meira eða frekar.

Víða standa auðir salir.

„Góður leigjandi sem loftar út og verður var við leka og heldur hita á húsum getur verið ómetanlegur til að varðveita verðmæti, jafnvel þótt leigan sé ekki há,“ skrifar hann. Því tengt nefnir Dagur sérstaklega Hafnar.haus sem hefði „sannað sig rækilega “ og Hlemm.haus sem sé „þvílík lyftistöng fyrir Hlemm-svæðið sem er að ganga í endurnýjun lífdaga“.

„Hvernig væri að gera tilraunir og kanna áhugan á leigu á áhugaverðum rýmum gegn hóflegu gjaldi víðar um land? Það er sköpunarkraftur í hverju bæjarfélagi, sem stundum er litið fram hjá. Og sorglegt ef skapandi fólk þarf að flytja til Reykjavíkur til að elta skapandi drauma. Það kostar lítið að prófa en það liggur fyrir að húsnæði sem stendur lítið notað eða tómt getur farið mjög illa ef nýtir það,“ skrifar Dagur að lokum.


Tengdar fréttir

60.000 auðir fermetrar

Alls 60.000 fermetrar af húsnæði í eigu ríkisins stendur tómt. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi. Húsnæðið er um land allt og tilheyrir svo til öllum málaflokkum. Margt bendir til þess að ríkið vanmeti virði þessara eigna stórlega en í svarinu segir að þær séu metnar alls á 10,7 milljarða sem er um 178 þúsund krónur á hvern fermetra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.