Innlent

Sex­tán ára kveikti í her­bergi sínu

Árni Sæberg skrifar
Skúli Jónsson er stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar í Hafnarfirði.
Skúli Jónsson er stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar í Hafnarfirði. Vísir/Arnar

Sextán ára piltur var handtekinn fyrir að kveikja eld inni í herbergi sínu í gærkvöldi. Hann býr í íbúð í Hafnarfirði á vegum sveitarfélagsins og tveir starfsmenn voru með honum í íbúðinni þegar hann kveikti í.

Allar fjórar stöðvar slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út vegna elds í íbúð við Sóleyjarhlíð í Hafnarfirði á áttunda tímanum í gærkvöldi.

Slökkvistarf gekk að sögn vel og búið var að ráða niðurlögum eldsins og reykræsta þegar rætt var við varðstjóra hjá slökkviliði laust fyrir klukkan 20.

Ljóst að kveikt hafi verið í

Skúli Jónsson, stöðvarstjóri á lögreglustöðinni í Hafnarfirði, segir í samtali við Vísi að alveg ljóst sé að um íkveikju hafi verið að ræða. Sextán ára piltur hafi verið handtekinn vegna hennar, yfirheyrður strax í gærkvöldi og vistaður á meðferðarheimilinu Stuðlum í kjölfarið.

Hann sé eini íbúi íbúðarinnar, sem sé úrræði á vegum Hafnarfjarðar fyrir einstaklinga með hegðunarvanda og annað slíkt. Tveir starfsmenn hafi verið í íbúðinni þegar pilturinn kveikti í. Hvorki piltinum né starfsmönnunum hafi orðið meint af.

Íbúðin sé í fjölbýlishúsi og reykur hafi borist út á stigagang, sem muni þurfa að þrífa og reykræsta. Einhverjir íbúar hússins hafi þurft að vaða reyk til þess að komast út og þeir hafi hlotið aðhlynningu sjúkraflutningamanna. Engan hafi þó þurft að flytja á sjúkrahús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×