Erlent

Kynnir stríðsmálaráðuneytið til leiks

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Trump ætlar að skrifa undir tilskipunina á morgun.
Trump ætlar að skrifa undir tilskipunina á morgun. EPA

Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar að undirrita forsetatilskipun á morgun þess efnis að nafni varnarmálaráðuneytisins verður breytt í stríðsmálaráðuneytið. Þá verður embættisheiti Pete Hegseth varnarmálaráðherra breytt í stríðsmálaráðherra. 

Þetta hefur Reuters eftir embættis Hvíta hússins. BBC hefur afrit af tilskipuninni undir höndum, en í henni er breytingin rökstudd á eftirfarandi veg:

„Nafnið stríðsmálaráðuneytið gefur sterkari skilaboð um hversu reiðubúin og einbeitt við erum í samanburði við nafnið varnarmálaráðuneytið, sem leggur einungis áherslu á varnir okkar.“

Í Bandaríkjunum starfaði stríðsmálaráðuneyti frá 1789 til ársins 1947 þegar það klofnaði í ráðuneyti flughersins og landhersins. Frá 1949 hefur varnarmálaráðuneyti verið starfrækt í Pentagon.

Bandaríska þingið þarf að samþykkja breytinguna svo hún nái fram að ganga en ólíklegt er að Repúblikanar, sem eru í meiri hluta á þinginu, hafni tillögunni. 

Trump hefur áður viðrað hugmyndina um nafnbreytinguna, og bent á að Bandaríkin eigi sér „ótrúlega sögu sigra“ í báðum heimsstyrjöldum þegar ráðuneytið hét stríðsmálaráðuneytið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×