Innlent

Svika­hrappur bankaði upp á og hafði peninga af eldri borgurum

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn komst inn á heimili fólksins á höfuðborgarsvæðinu.
Maðurinn komst inn á heimili fólksins á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú fjársvikamál þar sem íslenskur karlmaður fór á heimili eldri borgara í umdæminu, sagðist vera starfsmaður Microsoft og vera kominn þeim til aðstoðar. Hann hafði með því umtalsverða fjármuni af fólkinu.

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni segir að manninum hafi verið hleypt inn á heimili fólksins og veittur aðgangur að tölvu þar. Þar hafi hann millifært umtalsverða fjármuni af bankareikningum heimilisfólksins.

Þetta sé alvarleg þróun frá hefðbundnum Microsoft-símasvindlum þar sem fjársvikararnir séu nú farnir að fá að því er virðist innlenda aðila til að fara inn á heimili fólks í stað þess að hringja.

Lögreglan hvetji alla til að vera á varðbergi gagnvart slíkum fjársvikum og vilji minna á að starfsmenn Microsoft:

  • Koma aldrei óumbeðnir heim til einstaklinga
  • Óska aldrei eftir aðgangi að tölvum, símtækjum, iPad eða bankareikningum
  • Biðja aldrei um persónulegar upplýsingar í gegnum síma

Þá segir að hafi fólk orðið fyrir fjársvikum skuli hafa sambandi við viðskiptabanka sinn tafarlaust, hafa samband við lögreglu í síma 444-1000 og safna saman öllum upplýsingum um atvikið og senda á cybercrime@lrh.is.

Lögreglan sé með málið til rannsóknar eins og áður sagði og hvetji alla sem kunna að hafa orðið fyrir álíka fjársvikum til þess að hafa samband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×