Innlent

Segir and­úð meiri í garð Miðflokksmanna en trans fólks

Árni Sæberg skrifar
Sigríður og Sigmundur hafa komið Snorra til varnar.
Sigríður og Sigmundur hafa komið Snorra til varnar. Vísir

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins, hefur komið flokksbróður sínum Snorra Mássyni til varnar en hann hefur mátt þola holskeflu gagnrýni vegna orðræðu hans og framkomu í Kastljósi á mánudag. Sigríður bendir meðal annars á að samkvæmt könnun Fjölmiðlanefndar sé andúð í garð Miðflokksmanna rúmlega fjórum sinnum meiri en andúð í garð trans fólks. Þá hefur formaður flokksins komið sínum manni til varnar.

Öll spjót hafa staðið á Snorra síðan hann mætti Þorbjörgu Þorvaldsdóttur, verkefnastýru hjá Samtökunum '78, í Kastljósi á Rúv á mánudag, þar sem umræðuefnið var bakslag í málefnum hinsegin fólks.

Þar fór Snorri mikinn um hugmyndafræði sem hefði grafið um sig í hreyfingu hinsegin fólks þar sem þess væri krafist að fólki trúði því að til væru fleiri en tvö kyn og að líffræðilegir karlar ættu að fá að fara í kvennaklefa. Þetta væri róttæk breyting og skoða þyrfti meint bakslag í því samhengi.

Fólk hefur keppst við að gagnrýna Snorra harðlega fyrir orðræðu hans og framkomu. Meðal þeirra sem hafa stigið fram á ritvöllinn til þess eru Dagur B. Eggertsson, kollegi Snorra á þingi, Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks, Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður Samtakanna '78, og Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra.

Þá samþykktu allir 23 borgarfulltrúar síðdegis í gær á fundi borgarstjórnar ályktun um samstöðu þeirra með trans fólki og hinsegin samfélaginu öllu. Tilefni ályktunarinnar, sem var borin upp á fundi sem sameiginleg tillaga borgarstjórnar, var ummæli Snorra.

Stuðningur úr ekki svo óvæntri átt

Færri hafa lýst yfir stuðningi við Snorra þó að þeir finnist nokkrir í athugasemdakerfum samfélagsmiðla og víðar. Þá sagði Rósa Guðbjartsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, á Facebook í gær að gróf ummæli sem hafi fallið um Snorra sýni fram á margir sem þykjast alfarið vera á móti hatursumræðu séu augljóslega bara á móti umræðu sem þeir sjálfir hata.

 Sigríður Á. Andersen stakk niður penna á Facebook í morgun og spurði meðal annars hvernig það mætti vera að hávær hópur nýtti nú samfélagsmiðla og fréttatíma Ríkisútvarpsins til þess að vega að Snorra fyrir ummæli hans og framkomu.

Hún sagði að bæði Snorri og Þorbjörg hefðu komið sjónarmiðum sínum ágætlega á framfæri, að því marki sem þáttur Kastljós leyfir. 

„Það sem eftir situr er að Snorri og Þorbjörg eru ósammála um tiltekna nálgun í umræðu um þessi mál. Snorri lýsti þeirri skoðun sinni að umræða um fjölda kynja væri hluti af tiltekinni hugmyndafræði, án þess að gefast tækifæri til að skýra það nánar. Þorbjörg lýsti þeirri skoðun sinni að engin hugmyndafræði væri á ferð í umræðunni heldur bara mannréttindi, án þess að gefast tækifæri til þess að skýra það nánar. Kannski eru þau ósammála um hversu mörg kynin „eru“. Kannski eru þau það ekki. Það kom ekki fram.“

Hati hvorugt nokkurn mann 

Bæði hafi þau verið sammála um að allir hefðu rétt til að lifa sínu lífi eins og þeir kjósa. Bæði hafi verið sammála um að hatur og ofbeldi í garð náungans væri óforsvaranlegt. Þótt Snorri hefði einn lýst því skilmerkilega yfir að hann hataði engan þá leyfi hún sér að ganga út frá því að Þorbjörg hati ekki heldur nokkurn mann.

„Hvernig má það þá vera að hávær hópur nýti nú samfélagsmiðlana og fréttatíma Rúv til þess að vega að Snorra fyrir „ummæli“ og „hatursfulla“ orðræðu. Og „gamaldags“ hefur líka verið slengt fram sem hnjóðsyrði. Talsmenn í málaflokknum og áhugamenn hafa enga þolinmæði fyrir „umræðunni“. Það er ekkert nýtt. Meira að segja gagnrýni á opinberar fjárveitingar í málaflokkinn hefur verið lýst sem „hatur“. En nokkrum undarlegum spilum var spilað út í gær.“

Biskup, Landlæknir og stjórnmálamenn sem hafa séð betri daga

Sigríður segir að biskup Íslands hafi birt nýja mynd kristilegs kærleika með því að setja Kastljósþáttinn í samhengi við sjálfsvíg og reyna þannig að varpa ábyrgð á þáttastjórnanda og Snorra í þeim efnum.

Þá hafi Landlæknir verið dreginn á flot í kvöldfréttum Rúv til þess að renna stoðum undir það sem hún kallar aðförina að Snorra.

„Úr var undarleg samsuða yfirlýsinga sem engu skilaði til málefnalegrar umræðu en vöktu upp því mun fleiri spurningar hjá þeim sem gætu hafa fengið áhuga á þessum málaflokki eftir viðtalið við landlækni. Hvað telur landlæknir kynin vera mörg? Hvað segja sannreynd gögn um hitt og þetta í þessum efnum? Er þekking sérfræðinga óbrigðul? Er ekki krafa vísindanna að spyrja spurninga, ræða málin? Ætlar landlæknir að svara þessum spurningum?“

Þá hafi stjórnmálamenn sem hafi átt betri daga og ættu að hennar mati frekar að hugsa sinn gang stigið fram.

„Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra vísar til þingmannsins sem „geltandi kjána“. Einar Þorsteinsson borgarfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram ályktun gegn Snorra Mássyni þingmanni, í borgarstjórn! Þegar framangreint er skoðað af yfirvegun þá kemst maður ekki hjá því að velta því fyrir sér hverjir þeir eru raunverulega sem hafa horn í síðu tiltekinna hópa.“

Ísland, best í heimi

Loks segir Sigríður að um málaflokk hinsegin fólks hafi hún sagt og telji ekki eftir sér að endurtaka að Ísland sé best í heimi hvernig sem á þau mál sé litið. Ísland sé ítrekað meðal fremstu þjóða hvað varðar réttindi trans fólks og samkynhneigðra. 

„Fjölmörg „skorkort“ sýna fram á það. Íslendingar eru í 1. sæti á Tgue-réttindakorti transfólks í Evrópu og í 3. sæti á Regnbogakorti ILGA Europe, réttindasamtaka hinsegin fólks í Evrópu og Mið-Asíu. Þá voru lög um kynrænt sjálfræði samþykkt árið 2019. Mér er til efs að mörg ríki búi yfir slíkri löggjöf. Tal um bakslag er að mínu mati í besta falli ósanngjarnt.“

Komið hafi fram í könnun Fjölmiðlanefndar að andúð í garð samkynhneigðra (1,9%) eða transfólks (5,6%) sé lítil hér á landi. Að minnsta kosti í samanburði við andúð fólks á Alþingismönnum (9,8%), íhaldsmönnum (15,8%), stuðningsmönnum Miðflokksins (25%), loftslagsafneitunarsinnum (52,3%) eða andstæðingum bólusetninga, sem sé sá hópur sem mestri andúð sætir (58%). 

„Fjölmiðlanefnd neitaði að upplýsa um hvaða hópar það eru (t.d. kjósendur hvaða flokka) sem helst eru fullir af svona mikilli andúð. Hverjir skyldu það nú vera? Og hví þessi óskaplega andúð í garð sjónarmiða, skoðana?“

Einbeittur vilji til að snúa út úr

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur nú komið „hinum unga og efnilega þingmanns Miðflokksins, til varnar í pistli á Facebook.

Hann segir hafa reynst erfitt að henda reiður á því hvað af því sem Snorri sagði hafi kallað á þau viðbrögð sem sést hafa síðan á mánudaginn. Mest virðist lagt út frá einhverju sem hann sagði alls ekki.

„Kaldhæðnislegt er að í hinum ofsafengnu viðbrögðum raungerist einmitt það sem Snorri reyndi að vara við í umræddu viðtali. Í stað þess að ræða málflutning hans (og gagnrýna) birtist einbeittur vilji til að snúa út úr og forðast eðlilega umræðu. Þess í stað eru athugasemdir Snorra málaðar upp sem „hatur“ eða jafnvel hvatning til ofbeldis. Ef til vill er ástæða heiftarinnar sem nú birtist sú að ljóst er að Snorri bognar ekki undan þöggunartilburðum.“

Sum viðbrögðin séu einstaklega sérkennileg og hreinlega vandræðaleg, til dæmis „örvæntingarráð“ borgarfulltrúa framsóknarmanna.

„Sá var til skamms tíma borgarstjóri og horfir nú á flokk sinn minnka dag frá degi. Í örvæntingu sinni lagði hann til að borgarstjórn samþykki afbrigði svo borgarfulltrúar gætu ályktað um að þingmaður sem var í viðtalsþætti kvöldið áður ætti ekki að fá að tjá (meinta) skoðun sína.“

Þörf á fleiri þingmönnum sem þora á meðan aðrir þegja

„Snorri, sem er hallur undir raunverulegt frjálslyndi (en ekki eitthvað‘ nýtt gerræðislegt afbrigði þeirrar góðu hugsjónar), er sakaður um að „afneita tilvist“ fólks þótt slíkt hafi hann aldrei gert. Eins og allt eðlilegt fólk hefur hann líka óbeit á ofbeldi, eins og kom reyndar skýrt og ítrekað fram í máli hans í Kastljóssþættinum,“ segir Sigmundur Davíð.

Mál séu oft blásin upp í ákveðnum tilgangi en sé hugmyndin að banna þingmanninum Snorra Mássyni að viðra skoðanir sínar og ræða á opinberum vettvangi, sé rétt að stíga fast til jarðar.

„Frjáls tjáning er grundvallaratriði í okkar samfélagi og rétturinn til að skiptast á skoðunum sömuleiðis. Á þeim rétti hafa framfarir og grundvallarréttindi borgaranna byggst, ekki hvað síst minnihlutahópa. Mitt mat, eftir að hafa verið nokkuð lengi í þessum bransa er að við þurfum fleiri þingmenn sem þora meðan aðrir þegja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×