Körfubolti

Ísraelar sluppu með skrekkinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Deni Avdija var einu sinni sem oftar stigahæstur í ísraelska liðinu.
Deni Avdija var einu sinni sem oftar stigahæstur í ísraelska liðinu. getty/Dragana Stjepanovic

Í fyrsta leik dagsins í D-riðli Evrópumóts karla í körfubolta sigraði Ísrael Belgíu, 89-92. Með sigrinum tryggðu Ísraelar sér sæti í sextán liða úrslitum mótsins.

Þessi lið eru með Íslandi í riðli en klukkan 15:00 mæta íslensku strákarnir Luka Doncic og félögum hans í slóvenska landsliðinu.

Fyrir leikinn í dag var Pólland komið áfram í sextán liða úrslit og nú er ljóst að Ísrael fylgir heimaliðinu þangað.

Ísraelar unnu þriggja stiga sigur á Belgum í dag, 89-92, í leik sem fátt benti til að yrði spennandi. Ísraelska liðið leiddi nánast allan tímann og fyrir lokaleikhlutann munaði sautján stigum á liðunum, 54-71.

Belgíska liðið gafst hins vegar ekki upp og hleypti talsverðri spennu í leikinn í 4. leikhlutanum sem það vann, 35-21.

Loic Schwartz minnkaði muninn í fjögur stig, 85-90, þegar hann setti niður þriggja stiga körfu er nítján sekúndur voru eftir. Deni Avdija, aðalstjarna Ísraels, setti í kjölfarið niður eitt vítaskot en Siebe Ledegen minnkaði muninn enn frekar, 87-90, þegar átta sekúndur lifðu leiks.

Yam Madar kláraði hins vegar leikinn fyrir Ísrael með því að hitta úr tveimur vítaskotum. Engu breytti því þótt Emmanuel Lecomte skoraði síðustu körfu leiksins, 89-92.

Avdija var stigahæstur í ísraelska liðinu með 22 stig. Roman Sorkin skoraði átján og Tomer Ginat þrettán auk þess að taka þrettán fráköst.

Lecomte skoraði fimmtán stig fyrir Belgíu sem mætir Póllandi í lokaumferð riðlakeppninnar á fimmtudaginn. Schwartz og Hans Vanwijn skoruðu fjórtán stig hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×