Íslenski boltinn

„Við eigum bestu stuðnings­menn á landinu“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Júlíus Mar Júlíusson segir KR-inga spennta fyrir kvöldinu og ákveðna í því að gera vel fyrir stuðningsmenn á sínum heimavelli.
Júlíus Mar Júlíusson segir KR-inga spennta fyrir kvöldinu og ákveðna í því að gera vel fyrir stuðningsmenn á sínum heimavelli. vísir / jón gautur

Júlíus Mar Júlíusson, leikmaður KR, segir spennu í hópnum fyrir leik við Stjörnuna að Meistaravöllum í Vesturbæ í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. 

„Þetta leggst mjög vel í menn. Þeir eru spenntir fyrir verkefninu og allir tilbúnir að gera sitt besta í dag og skila stuðningsmönnum glöðum heim,“ segir Júlíus við íþróttadeild.

KR vann Fram 1-0 í síðasta leik og var það í fyrsta skipti sem liðið tengir saman tvo sigra í sumar og sömuleiðis fyrsti útisigur liðsins - ef heimaleikir á hálfgerðum útivelli í Laugardal framan af sumri eru undanskildir. Það er því létt yfir mönnum.

„Það hefur góð áhrif á hópinn að vinna en fyrst og fremst er það frammistaðan sem þarf að vera góð og vaxandi í leiknum hjá okkur. Þetta er ákveðið ferli og við þurfum að halda áfram að bæta okkur dag frá degi,“ segir Júlíus.

KR féll heldur mikið til baka í síðari hálfleik gegn Fram í síðasta leik og voru heldur ólíkir því sem maður hefur vanist frá liðinu í sumar. Enda 1-0 ekki algengar lokatölur. Þarf að laga eitthvað frá leiknum við Fram?

„Við leikmenn þurfum að stíga upp og gera okkar besta. Að fylgja leikplaninu og þá gerist það líklega ekki aftur. Þetta er bara á okkur, við þurfum bara að vera klárir og styðja við bakið á hvort öðrum.“

Von á skemmtilegum leik

Stjarnan hefur verið á mikilli siglingu síðustu vikur og getur með sigri farið upp í þriðja sæti deildarinnar. Garðbæingar setja stefnuna á Evrópusæti og eftir sigur Vestra í bikarúrslitum er ljóst að aðeins efstu þrjú sæti deildarinnar gefa keppnisrétt í Evrópu að ári. Bæði lið þurfa þrjú stig í jafnri deildinni.

„Ég held að þetta verði mjög skemmtilegur leikur. Bæði lið vilja sækja til sigurs. Ég held það verði spilaður flottur fótbolti í kvöld, svo er veðrið gott svo aðstæður eru mjög góðar fyrir góðan fótboltaleik í kvöld,“ segir Júlíus sem er þá spenntur fyrir því að spila fyrir framan stuðningsmenn KR-inga í Vesturbænum.

„Það gefur okkur ótrúlega mikið að spila á Meistaravöllum því við eigum bestu stuðningsmenn á landinu. Þeir eru alltaf duglegir að mæta og það eru alltaf yfir 1.500 manns á hverjum leik. Við eigum þeim vel að þakka fyrir það og ætlum að gera vel fyrir stuðningsmennina í kvöld.

Leikur KR og Stjörnunnar hefst klukkan 18:00 á Meistaravöllum í kvöld. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn Sport Ísland og hefst útsending klukkan 17:50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×