Innlent

Meiri­hluti hefur á­hyggjur af laxa­stofninum nema í fjörðunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjókvíar í Skutulsfirði á Vestfjörðum. Verulegur munur er á afstöðu svarenda í könnuninni gagnvart laxastofninum eftir því hvort þeir búa þar sem fiskeldi er stundað eða ekki.
Sjókvíar í Skutulsfirði á Vestfjörðum. Verulegur munur er á afstöðu svarenda í könnuninni gagnvart laxastofninum eftir því hvort þeir búa þar sem fiskeldi er stundað eða ekki. Vísir/Anton

Rúmur helmingur svarenda í skoðanakönnun segist hafa miklar áhyggjur á því að íslenski laxastofninn sé í hættu. Afgerandi munur er hins vegar á afstöðu eftir landhlutum. Íbúar á Vestfjörðum og Austurlandi þar sjóeldi á laxi er mest stundað hafa áberandi minnstar áhyggjur af stofninum.

Sjókvíaeldi hefur verið heitt deiluefni á sumum stöðum á landinu. Stangveiðimenn hafa þannig verið með böggum hildar yfir því að eldilax sem losnar í sjókvíum geti ratað upp í ár og spillt villta laxastofninum. Nýlega voru fréttir um að eldislax hefði fundist í Haukadalsá á Vesturlandi.

Í skoðanakönnun Maskínu sem var gerð í síðustu viku sögðust 56 prósent svarenda hafa miklar áhyggjur af framtíð íslenska laxastofnsins. Tæpur fjórðungur sagðist litlar eða engar áhyggjur hafa.

Vestfirðingar afgerandi áhyggjulausastir

Meirihluti svarenda í öllum landshlutum utan Vestfjarða og Austurland sagðist hafa miklar áhyggjur af stofninum. Hæst var hlutfallið í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur (60 prósent) og í Reykjavík sjálfri (58 prósent).

Allt aðra sögu var að segja af Vestfjörðum og Austurlandi. Í báðum landshlutum er lax alinn í sjókvíum í fjörðum. Á Austurlandi höfðu engu að síður flestir áhyggjur af laxastofninum, 38 prósent. Rúmur þriðjungur sagðist hafa litlar eða engar áhyggjur.

Vestfirðingar voru mun afdráttarlausari. Aðeins 29 prósent þeirra lýstu áhyggjum af laxastofninum en 63 prósent sögðust litlar eða engar áhyggjur hafa.

Vinstri græn með mestar áhyggjur en sjálfstæðismenn minnstar

Töluverður munur var á afstöðu fólks eftir stjórnmálaskoðunum. Kjósendur Vinstri grænna (77,9 prósent) og Sósíalistaflokksins (73,1 prósent) sögðust hafa afgerandi mestar áhyggjur af laxastofninum.

Á hinum endanum sögðust aðeins 29,8 prósent sjálfstæðismanna hafa áhyggjur og 42 prósent framsóknarmanna. Meirihluti stuðningsmanna hinna flokkanna sagðist hafa áhyggjur af stofninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×