Erlent

Bauð Selenskí til Moskvu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútin, forseti Rússlands.
Vladimír Pútin, forseti Rússlands. AP/Vyacheslav Prokofyev

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, bauðst til þess að taka á móti Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, í Moskvu. Þetta mun rúsneski forsetinn hafa sagt við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, þegar þeir töluðu saman í síma í gær.

Selenskí er sagður hafa hafnað því boði um leið og hann heyrði af því, samkvæmt AFP fréttaveitunni.

Rússar hafa nokkrum sinnum reynt að ráða Selenskí af dögum. Í upphafi innrásarinnar í febrúar 2022 sendu Rússsar sérsveitarmenn til Kænugarðs með það verkefni að handsama Selenskí eða ráða hann af dögum. Til skotbardaga kom í forsetahöllinni.

Sjá einnig: Líf­verðir Selenskís sakaðir um að skipu­leggja bana­til­ræði

Trump ræddi við stjórnendur þáttarins Fox and Friends í beinni útsendingu í dag, þar sem hann fór um víðan völl en ræddi þó mest málefni Úkraínu. Þá sagði hann meðal annars að mögulegt væri að Pútín hefði ekki áhuga á friði.

„Ég held að Pútín sé þreyttur á þessu. Ég held þeir séu allir þreyttir á þessu, en maður veit aldrei,“ sagði Trump.

„Við munum komast að því á næstu vikum ... það er mögulegt að hann vilji ekki semja um frið.“

Þá sagði Trump ef Pútín neitaði að semja frið myndi forsetin rússneski standa frammi fyrir erfiðum aðstæðum. Þar er hann líklegast að vísa til hertra refsiaðgerða en Trump hefur ítrekað á undanförnum mánuðum hótað slíkum aðgerðum gegn Rússlandi án þess að standa við stóru orðin þegar á hólminn er komið.

Í viðtalinu sagði Trump einnig að hann myndi ekki senda hermenn til Úkraínu. Meðal þess sem rætt var á fundunum í Hvíta húsinu í gær var hvernig hægt yrði að tryggja öryggi Úkraínu verði Úkraínumenn við kröfum Rússa og friði verði komið á.

Ráðamenn í Evrópu hafa kallað eftir öflugum öryggistryggingum en efst á lista Úkraínumanna er aðild að Atlantshafsbandalaginu, sem Trump hefur þvertekið fyrir að sé í boði.

Trump hefur áður sagt að ríki Evrópu yrðu að tryggja öryggi Úkraínu en hann hefur gefið í skyn á undanförnum dögum, eftir fundinn með Pútín í Alaska, að hann sé tilbúinn til að koma að því með einhverjum hætti. Hann nefndi til dæmis mögulegan stuðning við evrópskt herlið með bandarískum orrustuþotum.

Sjá einnig: Herir Evrópu standa á brauð­fótum eftir ára­tuga niður­skurð

Þá gaf hann enn eina ferðina í skyn að Úkraínumenn bæru ábyrgð á innrás Rússa með því að leita skjóls hjá Atlantshafsbandalaginu og að hafi verið heimskulegt af þeim að hefja stríðið, vegna þess hve mikið öflugri Rússar væru.

Trump sagði að viðleitni Úkraínumanna varðandi inngöngu í NATO heði verið „mjög móðgandi“ gagnvart Rússum.

Ráðamenn í Rússlandi hafa á síðustu dögum þvertekið fyrir að samþykkja erlent herlið í Úkraínu, annað en þeirra eigin, og þá hafa þeir einnig gefið til kynna að þeir hafi ekki látið af kröfum sínum gegn Úkraínu með nokkrum hætti.

Meðal krafa Rússa, sem eiga samkvæmt Bandaríkjamönnum að vera á borðinu, er að úkraínskir hermenn hörfi alfarið frá Donbassvæðinu svokallaða. Það er myndað Dónetsk- og Lúhanskhéruðum en Rússar stjórna Lúhans nánast öllu.

Stór hluti Dónetsk er þó enn í höndum Úkraínumanna og þar eru nokkrar borgir og nokkrir bæir sem Úkraínumenn hafa víggirt mjög.

Rússar hafa um mánaðaskeið lagt mesta áherslu á sókn þeirra í Dónetskhéraði sem hefur verið mjög hæg og er sögð hafa kostað þá verulega.

Hér má sjá grófa mynd af stöðunni á víglínunni í Úkraínu. Rússar vilja að Úkraínumenn hörfi frá Dónetsk og þar á meðal frá bæjum eins og Pokrovks og Kramatorsk, sem eru mjög víggirtir. Rússar hafa um mánaðaskeið reynt að ná Pokrovsk úr höndum Úkraínumanna.Vísir/Hjalti

Tengdar fréttir

Fordæmisgefandi fyrir Ísland hvernig haldið verði á málum Úkraínu

Forsætisráðherra segir jákvæðan tón í ráðamönnum eftir fund Evrópuþjóða við Bandaríkjaforseta og Úkraínuforseta. Skýrar meldingar hafi komið frá Bandaríkjunum að þau muni taka þátt í að tryggja frið komist hann á. Hún segist raunsæ með framhaldið.

„Því miður vantar ennþá ansi mikið“

Sérfræðingur í alþjóðamálum segir fund Donalds Trump Bandaríkjaforseta með forseta Úkraínu og öðrum leiðtogum Evrópuríkja hafa verið ágætan, en hann hafi skilað litlum árangri. Allt strandi á afstöðu Rússlands gagnvart vopnahléi og öryggistryggingum, sem hafi ekkert breyst, þrátt fyrir fundi.

Rýnt í sögulegan fund: Skref nær friði eða meiri vonbrigði?

Blaðamaður Vísis sem fylgst hefur með stríðinu í Úkraínu frá upphafi fór yfir helstu vendingarnar og væntingarnar af yfirstandandi fundi Trump Bandaríkjaforseta með Selenskí Úkraínuforseta og einvalaliðs evrópskra leiðtoga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×