Innlent

Fleiri eldislaxar í Hauka­dals­á: „Þetta lítur alls ekki vel út“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Myndir frá aðgerðinni í Haukadalsá í nótt þar sem þrír eldislaxar veiddust neðarlega í ánni.
Myndir frá aðgerðinni í Haukadalsá í nótt þar sem þrír eldislaxar veiddust neðarlega í ánni. Íslenski náttúruverndarsjóðurinn

Framkvæmdastjóri Stangveiðifélags Reykjavíkur segir þrjá eldislaxa hafa veiðst í Haukadalsá í Dalabyggð á Vesturlandi í nótt og vitað sé um fleiri. Staðan sé verri en menn þorðu að vona en næstu skref sé að senda lífssýni til rannsóknar, greina hvaðan fiskarnir koma og hreinsa ána.

Íslenski náttúruverndarsjóðurinn varaði í gærkvöldi við strokulaxi í Haukadalsá eftir að fjöldi stórra laxa, allt að 90 sentímetrar að stærð, sem þótti næstavíst að væri eldislax fannst neðarlega í ánni. 

Eftir að myndir og myndbönd birtust af löxunum í gær var Jó­hann­es Stur­laugs­son, fiski­fræðing­ur, kallaður út og fór vest­ur í Dali með Ingólfi Ásgeirs­syni og Óskari Páli Sveins­son frá Íslenska náttúruverndarsjóðnum. Þar var farið í aðgerðir til að kanna málið.

„Þetta er á frumstigi og það var farið í aðgerð í nótt að meta ástandið. Þetta virðist líta verr út en við vorum að vona,“ segir Ingimundur Bergsson, framkvæmdastjóri Stangveiðifélagsins sem selur veiðileyfi í Haukadalsá

„Þetta lítur alls ekki vel út, það er núna verið að meta næstu skref sem verður unnið í dag,“ segir hann.

„Virðist í fljótu bragði vera úr sleppingu sem var ekki tilkynnt“

„Það veiddust þrír eldislaxar í nótt og vitað er að fleiri eru á staðnum. Það er ekki alveg vitað umfangið eða hversu dreift þetta er um ánna því það var nánast bara einn staður, neðarlega í ánni, sem var skoðaður,“ segir Ingimundur.

Fyrir tveimur árum höfðu eldislaxar dreift sér víða um land og veiddust í nánast öllum ám á Vesturlandi. Þá voru norskir kafarar kallaðir til sem kembdu fjölmargar ár landsins og drápu eldislaxa í hundraðatali.

„Það á eftir að taka lífssýni úr þessum fiskum sem voru veiddir í nótt og þá er hægt að grafa upp úr hvaða kvíi þetta kemur og frá hverjum. Þetta er líklega úr sjókvíi og virðist í fljótu bragði vera úr sleppingu sem var ekki tilkynnt,“ segir Ingimundur.

Það sé ekki lítið mál að útrýma eldislaxinum þegar hann hefur dreift sér.

„Vandamálið við þessa laxa er að þeir eru frjóir þannig þarna ertu með norskan eldislax sem kemur og fjölgar sér með þúsund ára gömlum íslenskum atlantshafslaxi. Þannig það er í raun verið að eyðileggja stofninn og verður erfðablöndun,“ segir Ingimundur.

Sturlaugur með eldislax í nótt.

„Vonandi hægt að koma köfurum þangað í hvelli og hreinsa ána“

Menn óttist að horfa upp á svipaða stöðu og árið 2023.

„Hitt var risamál, ég vona að þetta verði nú ekki eins stórt og það,“ segir hann.

Næstu skref eru að senda lífssýni til rannsókna, greina hvaðan fiskarnir koma og hreinsa ána. Þar að auki bíði menn eftir viðbrögðum Fiskistofu um hvað eigi að gera og hvernig viðbragðsáætlun fer í gang.

„En við köllum eftir því að þetta verði tekið alvarlega og vonandi hægt að koma köfurum þangað í hvelli og hreinsa ána, það er það mikilvægasta í þessu,“ segir Ingimundur að lokum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×