Erlent

Öryggis­ráðið á­kveður að taka yfir Gasa-borg

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Netanyahu hafði áður greint frá því að til stæði að hernema allt Gasa svæðið.
Netanyahu hafði áður greint frá því að til stæði að hernema allt Gasa svæðið. epa/Shawn Thew

Öryggisráð Ísrael hefur ákveðið að taka yfir Gasa-borg en Benjamin Netanyahu forsætisráðherra hafði áður lýst því yfir að til stæði að hernema allt svæðið í einhverja mánuði, þar til því yrði komið undir stjórn „vinveittra“ araba.

Ákvörðunina um að taka aðeins yfir Gasa-borg, að minnsta kosti í bili, má mögulega rekja til ósættis milli stjórnvalda og hersins um þær fyrirætlanir að taka yfir svæðið í heild.

Yair Lapid, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hefur fordæmt ákvörðun öryggisráðsins og kallað hana „hörmung sem mun leiða til frekari hörmunga“. Sakaði hann ráðherrana Itamar Ben Gvir og Bezalel Smotrich um að hafa narrað Netanyahu til að gera nákvæmlega það sem Hamas vildi.

Ákvörðunin myndi ekki aðeins leiða til dauða fleiri gísla og hermanna heldur pólitískrar óstjórnar.

Í yfirlýsingu um ákvörðun öryggisráðsins er minnst á aðra tillögu sem ráðið hafnaði en hún er talin hafa komið frá Eyal Zamir, yfirmanna heraflans. Hann er sagður hafa varað við því að hernám Gasa myndi steypa Ísrael í „svarthol“ skæruátaka og mannúðarkrísu.

Hamas samtökin hafa fyrir sitt leyti sagt að áætlun Netanyahu sé til marks um vilja hans til að fórna þeim gíslum sem enn eru í haldi Hamas fyrir persónulega hagsmuni og hugmyndafræði.

Hundruðir mótmælenda söfnuðust saman við skrifstofu forsætisráðherrans í gær til að mótmæla frekari hernaðaraðgerðum og krefjast þess að stjórnvöld leggi áherslu á fá gíslana heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×