Fótbolti

Lars Lagerbäck lenti í slysi og kemur ekki til Ís­lands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck kemst ekki til Íslands í ár en ætlar að koma á næsta ári.
Lars Lagerbäck kemst ekki til Íslands í ár en ætlar að koma á næsta ári. Getty/Denis Doyle/

Lars Lagerbäck, fyrrum þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, kemur ekki til Íslands í þessari viku eins og áætlað var.

Lagerbäck ætlaði að taka þátt í Valsakademíunni í ár og þjálfa þar unga leikmenn ásamt Heimi Hallgrímssyni. Þeir hefðu þá unnið saman í fyrsta sinn síðan að þeir þjálfuðu saman íslenska karlalandsliðið með frábærum árangri frá 2012 til 2016.

Valsmenn segja frá því á miðlum sínum að Lars Lagerbäck forfallist vegna slyss og verður því ekki með í Valsakademíunni í ár.

„Lars var við vinnu í garðinum heima hjá sér í fyrrakvöld þegar hann fór úr mjaðmarlið og þurfti tafarlaust að fara í aðgerð. Lars er miður sín yfir því að geta ekki tekið þátt en hann var mjög spenntur að koma aftur til Íslands og leiðbeina ungum Íslendingum,“ segir í frétt á miðlum Valsmanna.

Þar kemur einnig fram að Lars stefnir hins vegar á að koma á næsta ári.

Lars er nýorðinn 77 ára gamall en hann þjálfaði síðast norska karlalandsliðið frá 2017 til 2020 en var auk þess aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins frá febrúar til ágúst árið 2021.

Valsakademían hefst á morgun miðvikudag og prógrammið helst óbreytt að öðru leyti. Heimi Hallgrímssyni, landsliðsþjálfara Írlands og fyrrum landsliðsþjálfara Íslands, heldur fyrirlestur og í kjölfarið stýrir Heimir æfingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×