Erlent

Hamas til í að gefa gíslum hjálpar­gögn ef Ísrael hleypir þeim inn á svæðið

Agnar Már Másson skrifar
Af Gasa, þar sem tugir þúsunda hafa fallið í valinn.
Af Gasa, þar sem tugir þúsunda hafa fallið í valinn. Vísir

Hamasliðar segja að þeir séu tilbúnir að vinna með Rauða krossinum til að flytja hjálpargögn til gíslanna sem þeir hafa í haldi sínu á Gasa að því gefnu að Ísraelsmenn uppfylli nokkur skilyrði.

Í gær var greint frá myndbandi sem Hamasliðar birtu af Evyatar David, ísraelskum gísl sem sást beinaber grafa holu í neðanjarðargöngum á Gasa. „Þetta er gröfin þar sem ég held að ég verði grafinn,“ sagði hann í myndbandinu.

Fjöldi vestrænna ríkisstjórna hefur fordæmt myndskeiðið og meðferð Hamas á 24 ára gíslinum, sem virðist magur af vannæringu. Hungursneyð er sögð vofa yfir Gasa, þar sem sextíu þúsund manns hafa látið lífið síðan allsherjarstríð braust út eftir að Hamas-liðar drápu tólf hundruð manns í Ísrael. Afar takmarkað magn hjálpargagna hefur borist síðustu vikur eftir að Ísraelsmenn lokuðu fyrir flutning þeirra á svæðið.

Hamasliðar segjast nu í yfirlýsingu tilbúnir að verða við öllum beiðnum Rauða krossins um að flytja mat og meðal til gíslanna en setja Ísraelsmönnum þau skilyrði að opna fyrir boðleiðir hjálpargagna inn á Gasa, og það ótímabundið. Þá verði loftárásum að linna meðan gíslarnir fái hjálpargögnin.

Kom enn fremur fram í yfirlýsingu Hama að samtökin væru ekki að svelta fangana vísvitandi, heldur gæfu gíslunum eins mikið að borða og vígamönnum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×