Innlent

Þjóðar­púls Gallups: Krist­rún og Þor­gerður gætu myndað meiri­hluta án Flokks fólksins

Agnar Már Másson skrifar
Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín við meirihlutaviðræður í desember.
Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín við meirihlutaviðræður í desember. Vísir/Vilhelm

Samfylkingin mælist með tæplega 35 prósenta fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallups og er stærst í öllum kjördæmum. Samkvæmt könnuninni gæti flokkurinn myndað meirihluta með Viðreisn án aðkomu Flokks fólksins. Framsóknarflokkurinn mælist rétt undir fimm prósentum.

Ríkisútvarpið greinir frá þjóðarpúlsinsum þar sem Samfylkingin mælist með mest fylgi (34,7). Flokkurinn fengi þannig tuttugu og sex þingmenn og bætir við sig þremur frá síðustu könnun. Hann hefur aldrei mælst stærri.

Sjálfstæðisflokkurinn er þar á eftir með 18,7 prósenta fylgi og dalar um þrjú prósentustig frá síðustu könnun. Þetta jafngildir þrettán þingmönnum. 

Viðreisn er í þriðja sæti 14,6 prósent, eða tíu þingmenn sem er jafnmikið og í síðustu könnun Gallúps.

Samfylkingin og Viðreisn hefðu samkvæmt könnuninni meira en nógu marga þingmenn til mynda meirihluta, og það án aðkomu þriðja flokks sem er í tilfelli núverandi meirihluta Flokkur fólksins.

Miðflokkurinn er sá fjórði stærsti í könnuninni og mælist með 10,5 prósent sem jafngildir sjö þingmönnum.

Flokkur fólksins mælist með 6,7 prósent í þessari könnun sem jafngildir fimm þingmönnum.

Framsókn aldrei minni

Framsókn mælist með 4,9 prósenta fylgi og hefur ekki mælst minna frá því að mælingar Gallups hófust árið 1992. Flokkurinn fengi því tvo þingmenn að því gefnu að hann næði að slefa sig upp yfir fimm prósentin.

Píratar mælast með 3,5 prósenta fylgi og það heyrir reyndar til nokkurra tíðinda meðal flokkanna á botninum þar sem Vinstri græn mælast með 3,4 prósent og taka fram úr Sósíalistaflokkunum, sem mælist með 2,4%.

Rúmlega 65 prósent þeirra sem taka afstöðu styðja ríkisstjórnina, sem er tveggja prósentustiga aukning frá síðustu mælingu, skrifar Rúv.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×