Sport

Bætti fjór­tán ára heims­met um ó­trú­lega heila sekúndu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Franski sundmaðurinn Leon Marchand er magnaður afreksmaður og nýja súperstjarnan í sundinu.
Franski sundmaðurinn Leon Marchand er magnaður afreksmaður og nýja súperstjarnan í sundinu. Getty/Quinn Rooney

Franski sundmaðurinn Léon Marchand var þjóðhetja á Ólympíuleikunum í París fyrir ári síðan en hann er líka að gera stórkostlega hluti á heimsmeistaramótinu í Singapúr sem stendur nú yfir hinum megin á hnettinum.

Marchand sló þannig fjórtán ára heimsmet Bandaríkjamannsins Ryan Lochte í 200 metra fjórsundi.

Metið var frá árinu 2011 þegar Marchand sjálfur var aðeins níu ára gamall.

Það var ekki nóg með það að Marchand hafi bætt svo gamalt heimsmet heldur var það einnig stórmerkilegt hvernig hann bætti metið.

Gamla heimsmet Lochte var 1:54.00 mín. en Marchand synti á 1:52.61 mín. Hann var því að bæta gamla heimsmetið um meira en heila sekúndu.

Marchand vann fern gullverðlaun á Ólympíuleikunum 2024 en keppir bara í 200 metra og 400 metra fjórsundi á HM.

Hann á um leið meiri orku inni til að bæta metin en gríðarleg keyrsla var á honum á leikunum í París. Þar fékk hann oft afar litla hvíld á milli keppnisgreina.

„Þetta er algjörlega klikkað, þetta er meira en sekúnda. Ég á eiginlega bara erfitt með að trúa þessu. 1:52 í tvö hundruð metrunum. Þetta er alveg geggjað,“ sagði Léon Marchand eftir sundið.

Marchand mun synda 400 metra fjórsund á sunnudaginn sem er lokadagur mótsins. Hann á sjálfur það heimsmet sem er 4:02.50 mín. og sett á HM 2023. Miðað við þennan tíman er líklegt að það falli líka.

„Mér leið virkilega vel fyrir sundið í dag. Ég var svo léttur í vatninu, náði góðum tökum og tæknilega gerði ég engin mistök,“ sagði Marchand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×