Innlent

Úkraínu­menn vilja fá Ís­lendinga í almannavarnabandalag

Agnar Már Másson skrifar
Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, og Olena Kondratiuk, varaforseti úkraínska þjóðþings.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, og Olena Kondratiuk, varaforseti úkraínska þjóðþings. Verkhovna Rada

Varaforseti Úkraínuþings vonar að Íslendingar gangi í almannavarnabandalag með Úkraínumönnum og Finnum sem sér um uppbyggingu sprengjuskýla í Úkraínu. Engin ákvörðun hefur verið tekin um inngöngu að sögn forseta Alþingis en það er til skoðunar.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, sækir nú alþjóðlega ráðstefnu þingforseta í Genf í Sviss. Í gær átti hún fund með Olenu Kondratiuk, varaþingforseta Úkraínuþings. 

Frá fundinum í gær.Verkhovna Rada

Engin ákvörðun tekin

Haft er eftir Kondratiuk í tilkynningu frá úkraínska þjóðþinginu að hún búist við því að Íslendingar gangi í nýlega stofnað almannavarnabandalag. Bandalagið var formlega stofnað af Úkraínumönnum og Finnum í maí með það að markmiði að byggja þrjú þúsund sprengjuskýli í Úkraínu.

„Við vonumst til þess að Íslendingar muni ganga í Almannavarnasambandið, sem sér um uppbyggingu skýlakerfis í Úkraínu,“ er haft eftir Kondratiuk.

Þórunn segir við fréttastofu að Kondratiuk hafi minnst á almannavarnabandalagið, sem sé frumkvæðisverkefni finnskra stjórnvalda, á fundinum í dag. Engin ákvörðun um slíkt hafi þó verið tekin að hálfu Íslenskra stjórnvalda en málið sé í skoðun.

Sniðgekk myndatöku með Rússum

Í tilkynningunni kemur enn fremur fram að Þórunn hafi sniðgengið myndatöku með Valentynu Matvjenko, þingforseta Rússlands.

Einnig er haft eftir Kondratiuk í tilkynningu frá úkraínska þjóðþinginu að Úkraínumenn séu þakklátir Íslendingum fyrir stuðnings. 

„Það sem er einkum mikilvægt,“ segir Kondratiuk, „að Íslendingar veiti Úkraínumönnum hernaðarlega og tæknilega aðstoð þó þeir séu herlausir. Heildarupphæð þessarar aðstoðar hefur þegar náð 54 milljónum bandaríkjadala [6.651 m. kr.].“

Forseti Alþingis og varaforseti úkraínuþings föðmuðust.Verkhovna Rada



Fleiri fréttir

Sjá meira


×