Innlent

Mögu­legur fyrir­boði um goslok

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eldgosið þann 17. júlí síðastliðinn.
Eldgosið þann 17. júlí síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

Eldgosið nyrst á Sundhnúksgígaröðinni hefur nú staðið yfir í 14 daga. Kvika virðist safnast undir Svartsengi á ný sem gæti verið fyrirboði gosloka.

Gosið hefur verið tiltölulega stöðugt undanfarna vikuna en um tíma voru ákveðnir púlsar í virkninni og mynduðust þá myndarlegir kvikustrókar.

Þetta kemur fram í færslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands á Facebook. Einn gígur gjósi sem hafi vaxið töluvert. Um tíma hafi opnast lítið gat utan í gígnum en slökknað hafi í því gosopi.

„Hraunbreiðan hefur nær ekkert vaxið síðustu daga heldur bunkast nýtt hraun ofan á hraun frá fyrstu dögum gossins.“

Hópurinn segir vísbendingar um að landris sé að taka við sér á nýjan leik við Svartsengi. Síðan um helgina hafi GPS mælar á svæðinu sýnt örlítið landris.

„Hvorki hafði mælst sig né ris á svæðinu frá gosbyrjun, sem gaf til kynna að allt innstreymi úr neðri kvikugeymslu færi beint upp í eldgosið.“

Nú virðist það hafa breyst og kvika tekin að safnast undir Svartsengi á nýjan leik.

„Gæti þetta verið fyrirboði gosloka, þar sem kvikustreymið að neðan gæti nú leitað upp í kvikuhólfið frekar en upp á yfirborðið. Landrisið er þó mjög hægt enn sem komið er og ættu næstu dagar að gefa skýrari mynd af stöðunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×