Innlent

Sérsveitin hand­tók mann í Garða­bæ

Árni Sæberg skrifar
Handtakan var framkvæmd á brúnni yfir Reykjanesbrautina við Urriðaholt.
Handtakan var framkvæmd á brúnni yfir Reykjanesbrautina við Urriðaholt. Vísir

Sérsveit ríkislögreglustjóra handtók karlmann í Urriðaholti í Garðabæ um klukkan 12:40 í dag. Hann er grunaður um eignaspjöll í miðbæ Reykjavíkur.

Í svari við fyrirspurn Vísis segir Rannveig Þórisdóttir, staðgengill upplýsingafulltrúa Ríkislögreglustjóra, að sérsveitin hafi komið að handtökunni að ósk Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hún geti ekki veitt frekari upplýsingar um málið.

Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni í Hafnarfirði, segir að atburðarásin hafi hafist í Reykjavík en bíll hins handtekna stöðvaður í Garðabæ. Hann búi því ekki yfir frekari upplýsingum um málið.

Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni á Hverfisgötu, segir að maðurinn sé grunaður um eignaspjöll í miðbæ Reykjavíkur. Lögreglumenn á vettvangi í bænum hafi kallað málið út og vökul augu annarra lögreglumanna hafi séð bíl hins handtekna í Garðabæ. Hann sé nú vistaður í fangaklefa og verði yfirheyrður síðar í dag. Rannsókn málsins sé á frumstigum.

Veistu meira um málið? Áttu myndir frá vettvangi? Sendu ábendingu á ritstjorn@visir.is.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×