Erlent

Paramount lúffar fyrir Trump og greiðir bætur vegna Kamölu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stjórnendur CBS sögðu svar Harris hafa verið stytt vegna tímaskorts en Trump sagði um að ræða „falsfréttir“.
Stjórnendur CBS sögðu svar Harris hafa verið stytt vegna tímaskorts en Trump sagði um að ræða „falsfréttir“. CBS

Paramount, móðurfélag CBS News, hefur samþykkt að greiða sextán milljónir dala til forsetabókasafns Donald Trump, vegna viðtals fréttaskýringarþáttarins 60 mínútna við Kamölu Harris, fyrrverandi varaforseta og þáverandi forsetaefni Demókrataflokksins.

Trump höfðaði mál gegn Paramount í október síðastliðnum og sagði framgöngu miðla fyrirtækisins hafa skaðað möguleika hans í forsetakosningunum. 

Samningaviðræður milli deiluaðila hafa staðið yfir síðan.

Samkvæmt umfjöllun Washington Post byggir samkomulagið á tillögu sáttasemjara. Peningarnir munu ekki renna beint til forsetans né mun Paramount biðja hann afsökunar.

Málið snérist um það hvernig svar Harris við spurningu þáttastjórnandans Bill Whitaker um það hvort Bandaríkin hefðu áhrifavald á Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, var klippt.

Styttri útgáfa af svarinu var spiluð í 60 mínútum en lengra og ruglingslegra svar spilað í morgunþættinum Face the Nation. Trump vildi meina að fyrri útgáfan hefði verið klippt og snyrt Harris í hag.

Forsvarsmenn CBS sögðu svarið hins vegar hafa verið stytt vegna tímaskorts.

Fyrrgreint samkomulag felur einnig í sér að Paramount heitir því að birta í framtíðinni afrit af öllum viðtölum við forsetaframbjóðendur, óritskoðuð.

Fyrirtækið átti mikið undir því að leysa málið en það þarfnast samþykkis stjórnvalda vegna fyrirhugaðs samruna við Skydance Media.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×