Skoðun

Össur fastur í ESB-horninu

Björn Bjarnason skrifar
Lendi stjórnmálamenn úti í horni grípa þeir stundum til „let them deny it"-aðferðarinnar. Þeir bera andstæðinga sína röngum sökum í von um að rangfærslan lifi en ekki hitt sem er satt og rétt.

Össur Skarphéðinsson er stjórnmálamaður í horni, ESB-horni. Hann reynir að brjótast úr því í Fréttablaðinu þriðjudaginn 25. september og segir mig vilja taka upp evru.

Fyrir þessari fullyrðingu utanríkisráðherra eru engin rök frekar en svo mörgu sem hann segir til að fegra ESB-málstað sinn.

Eftir að við sátum saman í Evrópunefnd sem lauk störfum í mars 2007 hef ég sannfærst um að ESB hafi lögheimild til að gera tvíhliða samning um evru-samstarf við ríki utan ESB og samningsstaða Íslands sem evru-ríkis sé lögfræðilega sterk. Nefni ég sem pólitískt fordæmi tvíhliða Prümsamning Íslands við ESB á grundvelli Schengensamstarfsins.

Á tvíhliða evru-lausn hefur aldrei verið látið reyna af Íslands hálfu.

Það háir mjög umræðum við ESB-aðildarsinna að þeir loka augunum fyrir öllu öðru en aðild. Sést æ betur hve hættulegt er að fela slíkum mönnum forystu í viðræðum um aðild að ESB. Allur vafi er túlkaður ESB í vil, íslenskir hagsmunir eru settir í annað eða þriðja sæti.

Ég hef aldrei lýst stuðningi við upptöku evru en sagst tilbúinn að vega og meta hagfræðilegar röksemdir. Við hagfræðilegt mat á gildi evrunnar stöndum við betur að vígi nú en 2007. Evran hefur fallið á prófinu. Það er argasta blekking að ég styðji upptöku hennar.

Össur Skarphéðinsson veit betur en birtist í grein hans. Vilji hann aðstoð mína við að komast úr ESB-horninu verður hann að segja satt.




Skoðun

Skoðun

Þúsundir kusu Sönnu

Anna Bentína Hermansen Einarsdóttir,Ármann Hákon Gunnarsson,Baldvin Björgvinsson,Brynja Guðnadóttir,Haraldur Ingi Haraldsson,Jón Hallur Haraldsson,Kolbrún Erna Pétursdóttir,Ólafur H. Ólafsson,Rakel Hildardóttir,Sigrún Jónsdóttir skrifar

Sjá meira


×