Körfubolti

„Þetta gefur mér vonir um að við getum barist um þetta“

Kári Mímisson skrifar
Borce Ilievski, þjálfari ÍR, ætlar sér stóra hluti með liðið í vetur.
Borce Ilievski, þjálfari ÍR, ætlar sér stóra hluti með liðið í vetur. Vísir/Pawel

Borce Ilievski, þjálfari ÍR, var að vonum ánægður með sannfærandi sigur sinna manna gegn Ármanni nú í kvöld. ÍR-liðið lék afar vel í dag gegn Ármanni sem hafði unnið tvo leiki í röð fyrir kvöldið í kvöld en lék kanalausir þar sem Brandon Averette er handleggsbrotinn.

„Ég er mjög ánægður með liðið mitt. Við mættum vel inn í þetta verkefni eftir að hafa undirbúið okkur alla vikuna. Til þess að vinna hér í kvöld vissum við að við þyrftum að vera einbeittir frá fyrstu sekúndu til þeirrar síðustu, sem mér þykir að strákunum hafi tekist í kvöld. Lykilatriðið var að fara eftir leikplaninu og okkur tókst að koma Ármenningum á óvart með því að byrja í svæðisvörn. Við náðum forystunni strax á upphafsmínútunni og bættum við hægt og rólega það sem eftir lifði leiks.“

Það hefur farið lítið fyrir Jacob Falko að undanförnu og það virðist eins og hlutverk hans hafi aðeins breyst. Borce segir að hlutverk Falko sé fyrst og síðast að vera umferðarstjórinn í sókninni og það sé að ganga vel þar sem liðið sé að fá framlög frá fleiri leikmönnum núna.

Þarf að tryggja að allir séu með í leiknum

„Falko er fyrst og fremst leikstjórnandinn okkar og þarf að tryggja að allir séu með í leiknum. Í leik eins og þessum í kvöld er Falko bara leikstjórnandi en þegar við þurfum stig þá er hann auðvitað til staðar fyrir okkur. Ég verð í leiðinni að fá að hrósa Hákoni fyrir hans framlag í kvöld en hann átti frábæran leik sem og Dimitri. Það var mikið undir fyrir okkur í þessum leik og við vissum að þetta yrði erfitt þar sem Ármann hefur leikið afar vel í síðustu leikjum liðsins og náð í tvo stóra sigra. Sjálfstraust er mikilvægt og því miður fyrir þá eru þeir að glíma við meiðsli eins og við sjáum á Brandon sem gat ekki leikið með þeim í kvöld. Það er mikill missir fyrir þá og ég vona að hann nái sér fljótt aftur og hjálpi Ármenningum það sem eftir er af tímabilinu.“

Með sigrinum í kvöld styrkja ÍR-ingar stöðu sína um að ná sæti í úrslitakeppninni þegar sex leikir eru eftir af deildarkeppninni. Borce segist hafa trú á liðinu sínu og virðist núna vera farinn að gæla við að kraftaverk geti gerst.

Allir eru að keppa um Íslandsmeistaratitilinn

„Allir eru að keppa um Íslandsmeistaratitilinn og við höfum nú þegar sýnt það að kraftaverk geta gerst. Ég hef mjög mikla trú á þessu liði ekki bara eftir þennan sigur heldur aðallega eftir að hafa séð þá á æfingum, hvernig þeir nálgast verkefnin og hversu vel þeir eru samstilltir. Þetta gefur mér vonir um að við getum barist um þetta. Síðustu tveir leikirnir voru gegn Stjörnunni og Tindastól sem eru með betri liðum í deildinni og við sáum þar að við getum keppt við þau ef við náum að halda einbeitingu eins og við gerðum í kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×