Handbolti

Rýr svör um stóru mis­tökin sem hefðu getað haft á­hrif á Ís­land

Sindri Sverrisson skrifar
Chema Rodriguez, þjálfari Ungverja, hefði alveg þegið vítakast í lokin gegn Svíum.
Chema Rodriguez, þjálfari Ungverja, hefði alveg þegið vítakast í lokin gegn Svíum. Getty/Sanjin Strukic

Þó að flestum sé ljóst að dómararnir gerðu stór mistök í lok leiks Ungverjalands og Svíþjóðar í gærkvöld eru svör EHF, Handknattleikssambands Evrópu, rýr varðandi málið.

Staðan var jöfn og Ungverjar með boltann þegar dæmdur var á þá ruðningur, nokkrum sekúndum fyrir leikslok. Svíar gátu þá tryggt sér sigur sem hefði gert að verkum að Ísland væri ekki með örlögin í eigin höndum í leiknum við Slóvena í dag.

Sem betur fer kastaði sænski markvörðurinn Andreas Palicka boltanum rétt framhjá marki Ungverja og niðurstaðan varð því jafntefli.

Dómararnir hefðu hins vegar ekki átt að dæma ruðning heldur vítakast fyrir Ungverja. Ef það hefði endað í netinu hefði Íslandi dugað jafntefli gegn Slóveníu í dag, en ekki aðeins sigur. 

TV 2 í Danmörku kallaði eftir svörum frá EHF um málið, í ljósi þess að dómararnir skoðuðu atvikið á myndbandi en ákváðu samt að breyta engu. Svörin voru hins vegar rýr, eins og fyrr segir.

„Ákvörðunin um að skoða upptöku myndbandsins er í samræmi við reglur um upptöku myndbands, aðstæður nr. 9 – úrslitastöður leiksins á síðustu 30 sekúndum.

Sú ákvörðun sem síðar kemur er staðreyndarákvörðun byggð á því sem dómararnir sáu. EHF er meðvitað um opinbera umræðu um ákvörðunina. Að jafnaði eru allir leikir, ákvarðanir sem teknar eru og ferlar skoðaðir. Þetta er þó eingöngu innra ferli,“ segir í svarinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×