Handbolti

Verða að koma með stemninguna sjálfir

Sindri Sverrisson skrifar
Það var dauft yfir strákunum okkar eftir leik í gær og í raun á meðan á leiknum stóð.
Það var dauft yfir strákunum okkar eftir leik í gær og í raun á meðan á leiknum stóð. VÍSIR/VILHELM

Gísli Þorgeir Kristjánsson benti á að mörg sæti hefðu verið auð í höllinni í Malmö í gær, á leiknum við Sviss á EM, og ekki ríkt sama andrúmsloft og á móti Svíum á sunnudaginn. Rúnar Kárason segir íslenska liðið verða að mynda eigin stemningu, alveg sama hver staðan sé í stúkunni.

Málið var til umræðu í Besta sætinu en hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér að neðan eða á hlaðvarpsveitum.

Ísland mætir Slóveníu í dag í úrslitaleik um að komast í undanúrslit og er leiktíminn sá sami og í gær og í tapinu gegn Króatíu á föstudag, klukkan 14:30 að íslenskum tíma (eða 15:30 að staðartíma). Vissulega engin draumatímasetning og það virðist hafa neikvæð áhrif á strákana okkar:

„Þá þurfum við að búa þetta [andrúmsloftið] til sjálfir og við náðum því ekki í dag. Vorum bara allt of linir. Þeir náðu bara að spila nákvæmlega eins og þeir vildu, óáreittir,“ sagði Gísli við Vísi eftir leik í gær.

Rúnar og Sebastian Alexandersson segja ábyrgðina liggja hjá leikmönnum. Þeir verði að mynda stemninguna.

„Svo mæta þeir bara til leiks og maður sér ekki hnefana á lofti og menn að fagna öllu. Ef þið komið með það strákar þá er andrúmsloftið innra með ykkur í lagi. Jú, jú, að vera að spila um hábjartan dag á þriðjudegi, í hálftómri höll, það er alveg skrýtið en eitthvað sem þessir gæjar hafa gert hundrað sinnum áður á stórmótum eða æfingamótum. Þú verður að koma með þetta sjálfur,“ sagði Rúnar.

Vanir að spila fyrir framan fáa áhorfendur

„Ekki gleyma upprunanum. Þeir koma allir héðan og hafa allir spilað fyrir framan 50-100 manns en samt verið geðveikt ON,“ sagði Sebastian og Rúnar tók við:

„Öskrað á alla og verið með geðveika stemningu. Við verðum að koma með hana og þá virkar stúkan ennþá betur með manni. Ef þú kemur ekki með þetta sjálfur þá getur stúkan öskrað að vild án þess að það hreyfi við þér.“

Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson kann að kveikja í áhorfendum.VÍSIR/VILHELM

Ekkert jess heldur bara hjúff

Íslensku stuðningsmennirnir hafa hins vegar verið frábærir á EM og munu ekki láta sitt eftir liggja ef leikmenn ná upp stemningu.

„Svo geta verið 2-3 leikmenn kannski sem eru mjög „vocal“ en ef þeir fá engar undirtektir þá bara hætta þeir. Ég hef séð þetta þúsund sinnum,“ sagði Sebastian.

„Gísli skoraði geðveikt mikilvægt mark í lokin og ég hjó eftir því að hann sagði ekki einu sinni „jess!“ Það var miklu frekar bara „ókei, ég skoraði, hjúff“,“ sagði Rúnar en umræðuna má heyra í spilaranum hér að ofan, seint í þættinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×