Viðskipti innlent

Sé ó­þarfi að blanda pólitískum skoðunum í nýtt hlut­verk

Lovísa Arnardóttir og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Bjarni segist í allt öðru hlutverki og þar skipti rök, staðreyndir og reynsla meira máli en hans pólitísku skoðanir.
Bjarni segist í allt öðru hlutverki og þar skipti rök, staðreyndir og reynsla meira máli en hans pólitísku skoðanir. Vísir/Lýður Valberg

Bjarni Benediktsson segir áhyggjuefni að það sé bakslag í baráttunni við verðbólguna og það sé krefjandi fyrir atvinnulífið að búa við hátt vaxtastig og hærri laun. Hann telur sína fortíð sína í pólitík ekki aftra sér í nýju hlutverki og telur að hann muni geta átt í góðum samskiptum við aðra leiðtoga innan atvinnulífsins, eins og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar. 

Hann segist hafa notið þess að taka sér ársfrí en hafi verið farinn að finna þörf fyrir meira viðnám í sínu lífi. 

„Það er borið undir mann hvort þetta komi til greina og þá fer nafn manns í einhverja umræðu og það tók svona frekar skamman tíma,“ segir Bjarni um það hvernig það kom til að hann muni taka við stöðu framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.

Hann segir þetta spennandi vettvang og það skipti verulega miklu máli að það gangi vel í atvinnulífinu. Það sé beintengt lífskjörum landsmanna. Hann sjái tækifæri í því að viðhalda samkeppnisstöðu atvinnulífsins.

Bjarni segist vona að kjarasamningar haldi út tímabilið en það liggi fyrir að það sé nauðsynlegt að ná böndum á verðbólgunni á þessu ári. Í kjarasamningum er ákvæði sem heimilar uppsögn í haust standist verðbólgumarkmið ekki. Hann segir það áhyggjuefni að það sé bakslag í baráttunni við verðbólguna og það sé krefjandi fyrir atvinnulífið að búa við svo hátt vaxtastig og hærri laun.

„Þarna þurfum við að finna nýtt jafnvægi, það er augljóst, og vonandi gagnast þetta ár í þeim tilgangi,“ segir Bjarni.

Spenna og launaskrið áhyggjuefni

Hvað varðar helstu áskoranir segir Bjarni spennu í hagkerfinu og það sé áhyggjuefni hversu mikil launaskrif hafi verið hjá hinu opinbera auk þess sem bætur séu að hækka og það eigi að fara í miklar framkvæmdir.

„Það eru allar vélar í gangi á sama tíma og við sjáum Seðlabankann reyna að kæla. Þetta er ákveðið áhyggjuefni. Þetta eru verkefni sem þarf að sinna,“ segir Bjarni sem tekur við stöðu framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins þann 1. mars. Hann segir sitt fyrsta verk að funda með starfsfólki og stjórn og hlusta.

„Það er það sem maður gerir þegar maður kemur nýr inn,“ segir hann og að hann muni gefa sér tíma til að kynna sér hjartslátt atvinnulífsins og sjá hvaða tækifæri eru á vinnumarkaði tengd til dæmis orku og tækni, en skilyrðin þurfi að vera góð.

Gott að taka sér ársfrí

Hann hefur verið í fríi frá því að hann hætti sem formaður Sjálfstæðisflokksins í fyrra og segir það hafa verið gott.

„Ég hef fengið gott ár til að draga andann, vera með fjölskyldunni og hvílast og ég fann að ég hafði bara mjög gott af því en síðan kemur að því að maður finnur þörfina fyrir meira viðnámi í lífinu. Ég hef það mikla starfsorku enn þá að mér fannst þetta mikið tækifæri fyrir mig, sem ég er þakklátur fyrir að hafa verið treyst til að sinna og hlakka til að taka til starfa.“

Bjarni segist hafa verið í samskiptum við fólk allan sinn starfsferil sem hann er ekki sammála. Það hafi aldrei verið persónulegt og hann sjái því ekki annað fyrir sér en að hann muni geta átt í góðum samskiptum við fólk sem áður hafi verið hans andstæðingar í pólitík, eins og til dæmis Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar.

„Við munum færa fram okkar rök þegar að því kemur og hlusta líka. Það er stór hluti af því að vera í starfi sem þessu að kunna að hlusta og skilja.“

Bjarni segir fortíð hans í pólitík ekki koma í veg fyrir að hann geti sinnt þessu hlutverki vel.

„Ég er bara í allt öðru hlutverki hér,“ segir hann og að Samtök atvinnulífsins færi fram sinn málstað og það verði hans hlutverk að gera það.

„Það þarf ekki að blanda pólitískum sjónarmiðum inn í það. Það er hægt að byggja það á rökum, staðreyndum og reynslum,“ segir hann og að verkefnið sé miklu meira sameiginlegt atvinnulífinu og vinnumarkaðnum en margur heldur.

Hann segist hafa fengið góðar kveðjur frá öðrum verkalýðsfélögum og sé spenntur að takast á við þetta nýja hlutverk.

Gott að vera á Íslandi

Bjarni segir það ekki hafa togað í sig að fara erlendis að vinna eins og algengt er þegar fólk hættir í pólitík.

„Mér finnst gott að búa á Íslandi,“ segir hann og að hann sé mjög þakklátur fyrir að fá þetta starf og að sinna því. Það verði krefjandi en það gefi því aukinn tilgang.

Spurður um það hvort hann sjái fyrir sér að vera lengi í þessu starfi segist hann ekki farinn að huga að starfslokum en hans tilfinning sé að hann eigi enn nokkuð inni.

„Ég held að í öllu svona starfi endist menn þeim mun lengur sem þeir hafa meiri ánægju og finna tilgang í vinnunni og ég sé fyrir mér að það verði enginn skortur á því hjá mér. Þannig það getur vel verið að ég endist lengi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×