Fótbolti

Stefán Teitur sætti sig ekki við bekkjar­setu: „Það besta í stöðunni“

Aron Guðmundsson skrifar
Stefán Teitur skartar hér treyju Hannover
Stefán Teitur skartar hér treyju Hannover Mynd: Hannover

Íslenski landsliðsmaðurinn Stefán Teitur Þórðarson er spenntur fyrir komandi tímum í Þýskalandi þar sem að hann hefur samið við lið Hannover. Hann sætti sig ekki við bekkjarsetu á Englandi og er spenntur fyrir öðruvísi hlutverki í Þýskalandi sem hann kannast þó einnig vel við.

„Þetta kom upp um miðjan desember en þessi tími hjá Preston upp á síðkastið, þar sem að ég byrjaði allt í einu að spila lítið sem ekki neitt olli því að bæði ég og félagið vorum sammála um að það væri best fyrir mig að finna mér annað félag,“ segir Stefán Teitur í samtali við Vísi.

Hvernig var að vera í þessari stöðu að fá lítið að spila og vissirðu þá fljótt að þú vildir komast annað, reyna fyrir þér hjá öðru félagi?

„Ég vissi það fljótt á. Ég ætlaði mér ekki að sitja á varamannabekknum hjá Preston og spila ekkert að mestu fimm mínútur. Mér fannst ég vera búinn að gera nóg fyrir Preston á síðasta tímabili til þess að sýna fram á að ég væri of góður til þess. Það var bara best í stöðunni að finna eitthvað annað. Hannover kom inn í myndina þarna í desember og það var eitthvað sem heillaði mig strax. Við keyrðum á það. Ég er hrifinn af því hvernig liðið spilar, hvernig þjálfarinn talaði um verkefnið framundan. Það talaði rosalega mikið til mín og ég finn það bara eftir að ég kom hingað að þeir spila mikinn sóknarbolta, halda mikið í boltann.“

Stefán Teitur Þórðarson fagnar sigurmarki gegn Portsmouth sem leikmaður Preston North EndPNEFC/Ian Robinson

Hvernig akkúrat telurðu leikstíl liðsins henta þér?

„Þetta líkist að ákveðnu leiti mínu síðasta tímabili hjá Silkeborg í Danmörku, hvernig Hannover spilar. Þeir hafa talað við mig um að ég gæti leyst allar stöður á miðjunni hjá þeim. Þeir vilja hins vegar að ég sé svona box to box leikmaður og skori einhver mörk eins og ég var að gera hjá Silkeborg á sínum tíma, hjá Preston var ég aðallega að spila sem djúpur miðjumaður.“

Til mikils er ætlast af Stefáni í Þýskalandi.

„Þeir vilja sjá mig koma inn sem leiðtoga. Þrátt fyrir að ég sé bara tuttugu og sjö ára þá bý ég að góðri reynslu bæði úr landsliðinu sem og þeim félagsliðum sem ég hef spilað með. Það eru bara spennandi tímar framundan.“

Hannover er stórt félag á þýskan mælikvarða og hefur í tvígang orðið þýskur meistari sem og einu sinni orðið þýskur bikarmeistari. Mörg ár hafa hins vegar liðið síðan þá og frá árinu 2019 hefur félagið verið fast í næstefstu deild Þýskalands.

„Þetta er risa félag. Það koma hátt upp í fimmtíu þúsund manns að meðaltali á heimaleiki liðsins. Bærinn lifir fyrir félagið og það er eitthvað sem mig langar að upplifa, að spila fyrir þannig félag. Maður finnur það bara strax, í gegnum skilaboðin sem maður fær og á fólkinu sem maður hittir í bænum, að það eru allir sem fylgjast með. Stærð félagsins og ástríðan sem hér ríkir er eitthvað sem dró mig hingað. Fótboltinn í Þýskalandi er líka mjög skemmtilegur eftir því sem maður hefur séð.“

Stefán Teitur í leik með íslenska landsliðinuvísir/Anton

Hvernig heldurðu að þýski boltinn muni eiga við þig?

„Bara vel. Fyrstu æfingarnar hafa gengið vel, þetta er skemmtilegur fótbolti og ég sé ekki fram á annað en að geta staðið mig mjög vel.“

Stefán Teitur gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir Hannover á morgun þegar að liðið heimsækir Kaiserslauten í þýsku B-deildinni og ber þess að geta að leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn Sport Viaplay og hefst klukkan hálf eitt. Stefán er klár í að spila.

„Ég er í flottu formi og ferskur og er klár ef þjálfarinn ákveður að spila mér. Ég er klár í það sem að hann vill að ég geri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×