Íslenski boltinn

Tveir ungir varnar­menn til FH

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristján Snær Frostason og Aron Jónsson eru mættir í Kaplakrika.
Kristján Snær Frostason og Aron Jónsson eru mættir í Kaplakrika. fh

FH hefur fengið tvo unga varnarmenn, Aron Jónsson og Kristján Snæ Frostason. Sá fyrrnefndi kemur frá Aftureldingu og sá síðarnefndi frá HK.

Aron, sem er fæddur 2004, lék sautján leiki með Aftureldingu í Bestu deildinni í fyrra. Hann er uppalinn hjá Brann í Noregi en fór til Aftureldingar fyrir tveimur árum.

„Aron er hafsent sem hefur mikið af þeim eiginleikum sem við erum að leita eftir, öruggur á boltanum, fljótur og kraftmikill og með gott hugarfar. Er með góðan bakgrunn frá Noregi, kominn með reynslu úr efstu deild hér á Íslandi og hefur mikinn metnað fyrir því að bæta sig enn frekar,“ segir Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH, um Aron.

Kristján, sem er fæddur 2005, hefur leikið 45 leiki fyrir HK í Bestu- og Lengjudeildinni.

„Kristján er sókndjarfur bakvörður með mikla hlaupagetu, hraða og kraft. Hann er kominn með fína reynslu úr efstu deild, gott hugarfar og mikinn vilja til að bæta sig enn frekar og stimpla sig inn í FH-liðið,“ segir Davíð um Kristján. Hann mun væntanlega berjast um stöðu hægri bakvarðar hjá FH við annan HK-ing, Birki Val Jónsson.

Auk Arons og Kristjáns hefur FH fengið markvörðinn Jökul Andrésson frá Aftureldingu og miðjumanninn Kára Kristjánsson frá Þrótti fyrir komandi tímabil.

Jóhannes Karl Guðjónsson var ráðinn þjálfari FH í vetur en hann tók við starfinu af Heimi Guðjónssyni.

Á síðasta tímabili endaði FH í 6. sæti Bestu deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×