Viðskipti innlent

Hvernig bæti ég fjár­hags­legt öryggi þegar ég verð eldri?

Björn Berg Gunnarsson skrifar
Björn Berg Gunnarsson svarar lesendum Vísis aðra hverja viku. Hægt er að senda honum spurningu í spurningaforminu hér fyrir neðan.
Björn Berg Gunnarsson svarar lesendum Vísis aðra hverja viku. Hægt er að senda honum spurningu í spurningaforminu hér fyrir neðan. Vísir/Vilhelm

45 ára kona spyr: „Sæll, ég byrjaði seint á vinnumarkaði eftir að hafa verið lengi í námi erlendis. Þegar ég skoða hvernig lífeyrismál mín standa er ég hrædd um að ég eigi von á lítilli framfærslu þegar ég hætti að vinna. Launin sem ég fæ eru ekki nógu há til að vega upp þann tíma sem ég greiddi ekki í lífeyrissjóð sem námsmaður. Hvað get ég gert í dag til að auka fjárhagslegt öryggi mitt í framtíðinni?“

Það er mikilvægt að fyrirbyggja afkomukvíða á efri árum. Þú ert þó það ung að ef gripið er inn í getur þú væntanlega haft verulega áhrif á þann fjárhag sem bíður þín síðar meir. En þá þarftu að vanda þig.



Taktu stöðuna

Fyrsta skrefið er að sjá í hvað stefnir að óbreyttu. Mundu að fjármál á lífeyrisaldri snúast um meira en bara greiðslur úr lífeyrissjóðum og því er mikilvægt að líta á eigna- og skuldastöðu sömuleiðis. Skrifaðu niður á blað hvenær núverandi skuldir (íbúðalán, bílalán, námslán o.s.frv.) verða gerðar upp.

Næst skráir þú þig inn á vef þíns lífeyrissjóðs með rafrænum skilríkjum. Þar sérð þú yfirlit yfir þau íslensku réttindi sem ekki er verið að bæta við í dag og væntanlega stöðu, að núvirði, við 65, 67 og 70 ára aldur. Í reiknivél þess lífeyrissjóðs sem nú tekur við greiðslum frá þér lætur þú svo framreikna ellilífeyrisréttindin þín. Nú ert þú komin með nokkuð skýra mynd af því hverjar ellilífeyristekjur þínar gætu orðið á efri árum, að öllu óbreyttu. Með hefðbundinni sparnaðarreiknivél, eða sérhæfðri reiknivél, reiknar loks þú út framtíðarstöðu þess séreignarsparnaðar sem þú safnar í dag.

Nú getur þú metið horfurnar og þörfina á að grípa inn í. Í hvað stefnir að þú munir þéna á lífeyrisaldri, hvað muntu eiga og skulda. Hljómar þetta vel? Líður þér sem þú sért örugg verði þetta staðan? Ef ekki skulum við velta fyrir okkur möguleikum á að bæta stöðuna enn frekar.

Nú þarf ég þó að staldra aðeins við og nefna að þar sem ég hef engar aðrar upplýsingar um þína hagi eða í hvaða lífeyrissjóð þú greiðir eru eftirfarandi hugleiðingar á tiltölulega almennum nótum.

Meiri séreign?

Þú skalt ganga úr skugga um að verið sé að draga af þér 4% eigið framlag í viðbótarlífeyrissparnað. Þú sérð það á launaseðlinum. Ef framlagið er 2% er sáralítið mál að auka það. Þannig getur þú ýmist aukið þann sparnað sem safnað er fyrir efri árin (án fjármagnstekjuskatts) eða þá fjárhæð sem mánaðarlega er greidd inn á eftirstöðvar húsnæðisláns (ef þú skuldar slíkt).

Þar að auki gæti þér boðist að auka söfnun annars konar séreignarsparnaðar, með skyldugreiðslum þínum í lífeyrissjóð. Sumir sjóðir bjóða upp á að verulega hátt hlutfall greiðslna séu geymdar í t.d. frálsri eða bundinni séreign og aðrir bjóða tilgreinda séreign. Með slíku dregur þú þó úr tryggingum, t.d. ellilífeyri og örorkulífeyri. Því þarft þú að meta hvort þér hugnast að auka söfnum séreignar á kostnað trygginga. Kynntu þér þessi mál betur í þessum greinum:

Tilgreind séreign – Á ég að skrá mig?

Þessa séreign áttu kannski eftir að geyma í tvo áratugi. Vandaðu vel valið á ávöxtunarleið, það getur munað miklu um góða ávöxtun.

Greiddu niður skuldir

Að greiða niður skuldir er sennilega öruggasta og farsælasta leiðin til bættrar fjárhagsstöðu á efri árum. Ég hef rætt við þúsundir Íslendinga á lífeyrisaldri, en engan nokkru sinni sem sér eftir því að hafa gert sig skuldlausan. Markviss niðurgreiðsla skulda er skattfrjáls og örugg, ávöxtun er afar góð, óvissa engin og engrar þekkingar eða kunnáttu krafist. Ef þér tekst vel til við niðurgreiðslu skulda getur þú betur mætt tekjufalli við starfslok og búið til svigrúm til aukins sparnaðar í aðdraganda starfsloka. Mikilvægi niðurgreiðslu skulda er því miður stórlega vanmetið í tengslum við lífeyrismál hér á landi.

Ekki herma eftir öðrum og ekki halda að þú sért að missa af tækifærum með því að spara ekki. Þess í stað skaltu setja þig í þann gír að ráðist verði á lánin af fullum krafti og þá gildir að því fleiri krónur sem greiddar eru, því betra.

En til þess að geta ráðist á skuldirnar þarf svigrúm að vera til staðar í heimilisfjármálunum. Því skalt þú skipuleggja þig vel og vandlega, útbúa heimilisbókhald og halda þig við það. Svigrúmið notar þú til að safna fyrir því sem nauðsynlegt er (svo sem samgögnum, viðhaldi, jólum og endurnýjun raftækja) og tryggja að nauðsynlegur neyðarsjóður sé alltaf aðgengilegur, en afgangurinn er lagður inn á lánið.

Nýttu góða reiknivél til að áætla áhrif þess að bæta við heildargreiðslur mánaðarins. Þér gæti brugðið þegar þú lítur á áhrifin. Athugaðu að mun betra er að áætla fasta heildarfjárhæð sem greidd er af lánum en að festa viðbótargreiðslu.

Hve mikið er nóg?

Á dögunum svaraði ég spurningu jafnaldra þíns sem spurði hve mikið sé nóg svo hægt sé að setjast í helgan stein. Þú skalt endilega kynna þér það svar vel. Til að aðstoða þig við að reikna út nauðsynlegan sparnað og heimilisbókhaldið á lífeyrisaldri getur þú svo nýtt þér reiknivélar sem ég útbjó að því tilefni:

Tekjur og útgjöld á lífeyrisaldri

Að ganga á eignir og sparnað

Blandaðar tekjur á lífeyrisaldri

Ekki vera hrædd við að reikna út ólíkar sviðsmyndir. Tekjur þínar á lífeyrisaldri gætu borist úr fleiri áttum en ellilífeyrisgreiðslum lífeyrissjóða og þitt markmið er að láta bókhaldið ganga upp. Fjöldi Íslendinga framfleytir sér á efri árum með ellilífeyri auk úttektar séreignarsparnaðar. Auk þess fá margir greiddar bætur, ganga á frjálsan sparnað, minnka við sig húsnæði og vinna samhliða lífeyristöku.

Reiknivélar og skipulag eru vinir þínir í þessari vinnu og það er jákvætt að þú viljir taka þetta mikilvæga verkefni föstum tökum. Gangi þér vel!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×