Enski boltinn

Áttunda fé­lagið í B-deildinni sem skiptir um stjóra í vetur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ryan Mason þarf að finna sér nýtt starf.
Ryan Mason þarf að finna sér nýtt starf. GETTY/Adam Fradgley

West Brom hefur sagt Ryan Mason upp sem knattspyrnustjóra félagsins. Alls hafa átta af 24 félögum í ensku B-deildinni skipt um stjóra á tímabilinu.

Kornið sem fyllti mælinn hjá stjórnarmönnum West Brom var tapið fyrir Leicester City í gær, 2-1. Þetta var tíunda tap liðsins á útivelli í röð.

Mason var látinn taka pokann sinn frá West Brom í morgun og félagið leitar því að þriðja stjóranum á síðustu tólf mánuðum.

James Morrison tekur tímabundið við West Brom sem sækir Swansea City heim í 3. umferð ensku bikarkeppninnar á sunnudaginn. Næsti deildarleikur West Brom er gegn Middlesbrough 16. janúar.

West Brom er í 18. sæti ensku B-deildarinnar með 31 stig eftir 26 leiki.

Hinn 34 ára Mason var ráðinn stjóri West Brom í sumar. Hann starfaði áður við þjálfun hjá Tottenham og tók tvívegis tímabundið við aðalliði félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×