Enski boltinn

„Hef á til­finningunni að hann hafi talað af sér þarna“

Sindri Sverrisson skrifar
Er Ruben Amorim á förum frá Manchester United?
Er Ruben Amorim á förum frá Manchester United? Getty/Robbie Jay Barratt

Arnar Gunnlaugsson segir að Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, hafi eflaust ígrundað vel og vandlega ummælin sem hann lét falla á blaðamannafundi í gær. Ummælin hafa vakið mikla athygli og spurningar um framtíð Amorim.

Portúgalinn lagði ríka áherslu á það á fundinum, eftir 1-1 jafnteflið við Leeds í gær, að hann væri stjóri en ekki þjálfari. Þannig yrði það „næstu 18 mánuði eða þar til að stjórnin ákveður að breyta til,“ sagði Amorim.

„Ég mun ekki hætta. Ég mun sinna mínu þar til að annar maður kemur í minn stað,“ bætti hann við en kvaddi svo fundinn áður en hægt var að spyrja hann frekar út í þessi ummæli.

Ummælin voru til umræðu í Sunnudagsmessunni á Sýn Sport í gærkvöld og má sjá brot úr þættinum hér að neðan.

Klippa: Messan - Ummæli Rubens Amorim

„Þetta er kannski byrjun á öðru Maresca-ævintýri,“ sagði Arnar og vísaði í brotthvarf Enzo Maresca frá Chelsea, eftir ósætti við stjórnendur.

„Það er augljóslega einhver pirringur á bakvið tjöldin og einhver valdabarátta. Hann er að nota þessa fundi til að senda skilaboð. Því miður fyrir þessa þjálfara, hvort sem skilaboðin eru rétt eða röng, þá er yfirleitt bara einn sigurvegari í svona. Þetta endar með því að þjálfarinn er látinn fara. Ef þú ert alltaf að skjóta á yfirmann þinn í gegnum fjölmiðla þá skiptir ekki máli hversu geðþekkur þú ert, þá verður þú látinn fara,“ sagði Arnar.

Af hverju ætti þá að dæla inn leikmönnum og gefa honum fullt traust?

Amorim virðist ósáttur við að fá ekki að hafa meiri áhrif á leikmannakaup United og það eru vísbendingar um vaxandi spennu á milli hans og yfirmanns knattspyrnumála, Jason Wilcox.

„Það er áhugavert að hann nefni þarna Tuchel, Conte og Mourinho. Hann er ekki á sama stalli og þeir en er samt að biðja um ákveðna virðingu. Svo veit ég ekki hvort hann er bara að tala um menn á bakvið tjöldin hjá United eða bara almennt hvernig talað er um hann, hvernig spurningar hann fær á blaðamannafundum. Mig vantar aðeins meira samhengi,“ sagði Albert Brynjar Ingason.

„Hann er ráðinn þarna inn til að byggja upp og er svo fastheldinn á sitt leikkerfi. Ef hann er að meina það sem hann segir þarna, að það séu átján mánuðir eftir af samningnum og svo sé hann bara farinn, af hverju ætti þá að fara að dæla inn einhverjum leikmönnum og gefa honum fullt traust?“ spurði Albert og Arnar svaraði:

„Ég hef á tilfinningunni að hann hafi talað af sér þarna.“

Umræðuna í heild má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×