Enski boltinn

Skilur baulið hjá stuðnings­mönnum vel

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Thomas Frank á enn gott samband við stuðningsmenn Brentford en var baulaður af velli af stuðningsmönnum Tottenham.
Thomas Frank á enn gott samband við stuðningsmenn Brentford en var baulaður af velli af stuðningsmönnum Tottenham. John Walton/PA Images via Getty Images

Thomas Frank, þjálfari Tottenham, sýnir því fullan skilning að stuðningsmenn hafi baulað liðið af velli eftir markalaust jafntefli gegn Brentford í gærkvöldi.

Frank stýrði Tottenham gegn sínum fyrri lærisveinum í afar tíðindalitlum leik.

Hann var þjálfari Brentford frá 2017, stýrði liðinu upp í úrvalsdeildina 2021 og var að snúa aftur á sinn gamla heimavöll í fyrsta sinn.

Fyrir leik fékk hann hlýjar móttökur frá heimamönnum og Frank gekk hringinn til að heilsa öllum fjórum hliðum stúkunnar áður en leikurinn hófst.

Líklega var það þó hápunktur kvöldsins því leikurinn sjálfur var leiðinlegur og skilaði Tottenham fyrsta markalausa jafnteflinu í síðustu 137 deildarleikjum.

Tottenham átti ekki skot á markið fyrr en í uppbótartíma, þegar Richarlison skaut beint í fangið á markmanninum, og undir lok leiks mátti heyra áhorfendur hrópa „Boring, Boring Tottenham“ eða „Leiðinlega, leiðinlega Tottenham.“

Sömu stuðningsmenn bauluðu svo þegar leiknum lauk og Tottenham gekk af velli.

Brentford átti fínan seinni hálfleik en þeirra bestu færi rötuðu ekki í netið, skalli frá Yehor Yarmoluk var varinn og Igor Thiago þrumaði boltanum rétt yfir markið.

„Áhorfendur virtust ekki mjög ánægðir með það sem þeir sáu og það er skiljanlegt. Þetta var engan veginn frábær frammistaða en við verðum líka að skoða báðar hliðar málsins og varnarlega vorum við flottir, en að sjálfsögðu þurfum við að gera betur sóknarlega“ sagði Frank eftir leik.

„Það jákvæða í þessu er að við mættum á erfiðan útivöll og fengum fá færi á okkur. Mér fannst þetta mjög fín frammistaða varnarlega“ sagði hann einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×