Innlent

Enn fleirum sagt upp hjá Ár­vakri

Eiður Þór Árnason skrifar
Árvakur er til húsa í Hádegismóum.
Árvakur er til húsa í Hádegismóum. Vísir/Vilhelm

Útvarpsmaðurinn Bolli Már Bjarnason er meðal þeirra sem var sagt upp störfum hjá Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, mbl.is og K100 í gær. RÚV greinir frá því að minnst átta starfsmönnum hafi verið tilkynnt um uppsögn í gær.

Telur Bolli þá tölu geta verið nærri lagi þó að hann hafi ekki yfirsýn yfir hagræðingaraðgerðirnar. Í gær kom fram að Kolbrúnu Bergþórsdóttur, blaðamanni, gagnrýnanda og pistlahöfundi, og Víði Sigurðarsyni, fréttastjóra íþróttadeildar, hefði verið sagt upp störfum hjá Morgunblaðinu. Bolli segir einnig hafa verið uppsagnir á auglýsingadeild fyrirtækisins.

RÚV greindi fyrst frá kaflaskiptunum hjá Bolla. Þrátt fyrir þetta kveðst hann vera brattur í samtali við fréttastofu og segir að uppsögnin muni gera honum kleift að setja meiri orku í önnur verkefni og það sem virkilega skipti hann máli. Margt spennandi sé fram undan hjá honum á næsta ári. 

Bolli Már Bjarnason segist vera með mörg önnur járn í eldinum.aðsend

„Ég er mjög léttur bara. Ég er með það mörg járn í eldinum að þetta var nú kannski bara best fyrir alla. Þetta er ekkert reiðarslag.“

„Svona virkar bransinn. Það er niðurskurður út um allt og það er bara áfram gakk og 2026 verður glæsilegt,“ segir Bolli að lokum. 

Fréttin er í vinnslu.


Tengdar fréttir

Víðir hefur nú loks tíma fyrir Lunch United

Það kom mörgum sem til þekkja í opna skjöldu þegar fréttist í gær að Víðir Sigurðsson íþróttafréttamaður hefði fengið reisupassann uppi í Hádegismóum en hann hefur starfað á Morgunblaðinu í 26 ár.

Sagt upp eftir 26 ár á Morgunblaðinu

Víði Sigurðssyni, fréttastjóra íþróttadeildar Morgunblaðsins og mbl.is, hefur verið sagt upp störfum hjá Árvakri. Hann hefur lokið störfum hjá fjölmiðlinum eftir 26 ára starf.

Kolbrúnu Bergþórs sagt upp á Mogganum

Kolbrúnu Bergþórsdóttur blaðamanni, gagnrýnanda og pistlahöfundi hefur verið sagt upp störfum hjá Morgunblaðinu. Hún staðfestir þetta í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×