Fótbolti

Nígeríu­menn snöggir að nýta sér liðs­muninn og fengu fullt hús

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ebere Paul Onuachu kom Nígeríu á bragðið gegn Úganda.
Ebere Paul Onuachu kom Nígeríu á bragðið gegn Úganda. getty/Ulrik Pedersen

Keppni í C-riðli Afríkumótsins í fótbolta lauk í dag. Nígería vann öruggan sigur á Úganda, 1-3, á meðan Tansanía og Túnis skildu jöfn, 1-1.

Nígeríumenn unnu alla þrjá leiki sína í C-riðli. Túnisar enduðu í 2. sæti og komust einnig áfram í sextán liða úrslit sem og Tansanir. Úgandamenn eru aftur á móti úr leik.

Ebere Paul Onuachu kom Nígeríu í 0-1 gegn Úganda á 28. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Á 56. mínútu fékk Úgandamaðurinn Salim Jamal Magoola rautt spjald og Nígeríumenn voru ekki lengi að nýta sér liðsmuninn.

Raphael Onyedika skoraði á 62. mínútu og svo aftur fimm mínútum síðar. Rogers Mato minnkaði muninn í 1-3 þegar stundarfjórðungur var til leiksloka en nær komst Úganda ekki.

Túnis tapaði ekki leik og fékk ekki á sig mark í undankeppni HM en hefur ekki sýnt sínar bestu hliðar á Afríkumótinu.

Túnisar unnu Úgandamenn í fyrsta leik sínum, 1-3, en töpuðu svo 3-2 fyrir Nígeríumönnum.

Í dag komst Túnis yfir gegn Tansaníu þegar Ismael Gharbi skoraði úr vítaspyrnu á markamínútunni, þeirri 43.

Í upphafi seinni hálfleiks jafnaði Feisul Salum en markið tryggði Tansani áfram í sextán liða úrslit. Þeir enduðu í 3. sæti riðilsins með tvö stig en fjögur af sex liðunum í 3. sæti riðlanna á Afríkumótinu komust áfram í sextán liða úrslit. 

Þar mætir Tansanía heimaliði Marokkó á meðan Túnis mætir Malí. Nígería mætir liðinu sem endar í 3. sæti F-riðils; Fílabeinsströndinni, Kamerún eða Mósambík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×