Íslenski boltinn

Þjálfar 2. flokk sam­hliða því að spila fyrir KR

Valur Páll Eiríksson skrifar
Alexander Helgi mun þjálfa 2. flokk KR á nýju ári.
Alexander Helgi mun þjálfa 2. flokk KR á nýju ári. Vísir/Diego

Alexander Helgi Sigurðarson er nýr þjálfari 2. flokks KR í fótbolta. Félagið greindi frá því á samfélagsmiðlum í gær.

Alexander Helgi tekur við flokknum af Theodóri Elmar Bjarnasyni sem hætti störfum hjá KR í haust. Theodór Elmar hafði verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks og aðalþjálfari 2. flokks.

Hilmar Árni Halldórsson, fyrrum leikmaður Stjörnunnar, tók við sem aðstoðarþjálfari fyrr í þessum mánuði og Alexander mun taka við 2. flokknum.

Alexander kom til KR fyrir síðustu leiktíð frá Breiðabliki þegar samningur hans í Kópavogi rann út. Hann hafði spilað allan sinn feril í Kópavogi áður en hann endurnýjaði kynnin við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara KR, í Vesturbæ, eftir að hafa leikið undir hans stjórn hjá Blikum.

Samkvæmt yfirlýsingunni hefur Alexander unnið að þjálfaramenntun sinni undanfarna mánuði og útskrifast með KSÍ-B gráðu í janúar.

Alexander spilaði 17 deildarleiki fyrir KR síðasta sumar er félagið rétt bjargaði sér frá falli með sigri á Vestra á Ísafirði í lokaumferð Bestu deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×